„Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir að hafa klárað þetta í kvöld. Nú setjumst við upp á Íslands- og Evrópubikarmeistaraskýið og sitjum þar í allt sumar,“ sagði Hafdís Renötudóttir markvörður nýkrýndra Íslandsmeistara Vals í kvöld eftir hafa tekið við Íslandsbikarnum. Hafdís var auk þess valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppni Olísdeildar kvenna eftir að hafa farið hamförum í úrslitaleikjunum þremur við Hauka.
„Að fá þessu viðurkenningu er hreint ótrúlegt verandi í þessum gæðahópi leikmanna,“ sagði Hafdís spurð út í viðurkenninguna sem henni hlotnaðist.
„Við höfum lagt mikið á okkur til þess að ná þessum árangri. Það má færa rök fyrir því að þetta lið er það besta í íslenskum kvennahandbolta frá upphafi. Ég fer ekkert leynt með það að við erum mjög góðar og vel samstilltar, gæðin eru mikil,“ sagði Hafdís og sló á létta strengi í lok viðtalsins.
Lengra viðtal við Hafdísi er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Olísdeild kvenna – fréttasíða.