Leipzig vann í dag sinn sjötta leik í röð eftir að Rúnar Sigtryggsson tók við þjálfun liðsins í byrjun nóvember en þá var liðið í miklum vanda.
Leipzig lagði GWD Minden í Minden í dag með minnsta mun, 29:28. GWD Minden berst um þessar mundir fyrir veru sinni í þýsku 1. deildinni og stendur ekki í ósvipuðum sporum og Leipzig var í þegar Rúnar kom að málum.
Með sigrinum setti Leipzig félagsmet en aldrei fyrr hefur lið félagsins unnið sex leiki í röð í efstu deild.
Viggó Kristjánsson var að vanda atkvæðamikill í sóknarleik Leizpig. Hann skoraði sex mörk, fjögur þeirra úr vítakasti. Einnig gaf Viggó tvær línusendingar. Viggó var markahæstur hjá Leipzig ásamt Sime Ivic. Philipp Ahouansou var markahæstur hjá Minden með 11 mörk úr 20 skotum.
Leipzig var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18:14, og hafði einnig fjögurra marka forskot þegar skammt var til leiksloka, 29:25. Rúnar sagði í samtali við handbolta.is í byrjun vikunnar að viðureignin við GWD Minden yrði prófraun á leikmenn Leipzig.
Með sigrinum í dag færðist lið Leipzig upp í níunda sæti þýsku 1. deildarinnar með 16 stig eftir 16 leiki.