- Auglýsing -
- Auglýsing -

Staðan leyfði ekki neinar afsakanir

Rúnar Sigtryggsson þjálfari Leipzig fylgist með sínum mönnum. Mynd/Klaus Trotter
- Auglýsing -

„Það er allt jákvætt eins og móðins er að taka til orða í dag,“ sagði Rúnar Sigtryggsson þjálfari þýska 1. deildarliðsins Leipzig í samtali við handbolta.is en gengi liðsins hefur tekið pólskiptum eftir að Rúnar tók við þjálfun þess fyrir um mánuði. Leipzig var í fallsæti með fjögur stig en hefur unnið fimm leiki í röð eftir að Rúnar tók við.

Menn verða að standa í lappirnar

„Ég kom inn með nokkur atriði til breytinga í leikinn sem hafa haft mikið að segja. Svo virðist að minnsta kosti vera. Boltinn gengur til dæmis mikið betur í sóknarleiknum en áður,“ sagði Rúnar og bætti við; „Svo er bara engar afsakanir í boði hjá okkur. Staðan leyfði það ekki. Menn verða bara að standa í lappirnar. Ég gerði þeim grein fyrir því og menn sætta sig við það.“

Fyrsti sigurinn jók sjálfstraustið

Daginn eftir að Rúnar kom til Leipzig fyrir mánuði vann liðið Wetzlar á útivelli. „Við lékum ekki vel gegn Wetzlar en sigurviljinn var fyrir hendi. Viljinn fleytti okkur langt í þeim leik og sigurinn gaf mönnum ákveðið sjálfstraust enda var Wetzlar þá fyrir ofan okkur. Síðan höfum við byggt ofan á hvern leikinn á fætur öðrum.“

Nóg af góðum leikmönnum

Rúnar sagði ennfremur að það hafi legið fyrir þegar hann kom til félagsins að liðið væri vel skipað. Skortur á góðum leikmönnum hafi ekki verið ástæða þess að illa gekk framan af og aðeins fengust fjögur stig í 10 leikjum. Menn hafi verið tilbúnir að svara kalli sínu þegar á hólminn var komið.

Samstaða og mætt áföllum

„Viggó Kristjánsson hefur verið frábær. Einnig Luca Witzke, Simon Ernst og Kristian Sæverås markvörður svo nokkrir séu nefndir. Um leið og ég hitti ég Sæverås sagði ég honum að hann yrði markvörður númer eitt og nyti fulls trausts. Hann hefur svo sannarlega staðið undir því og verið mjög góður.
Á sama tíma og við höfum sameinast um að leggjast allir á árarnar þá höfum við einnig orðið fyrir áföllum. Mennirnir í miðjublokkinni í vörninni eru til dæmis úti vegna meiðsla.“

Lét Viggó hafa stjórntaumana

„Ég lét Viggó einnig fá ákveðna stjórnartauma að liðinu og hann hefur unnið mjög vel úr því. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun,“ sagði Rúnar og ber mikið lof á framgöngu Viggós sem hefur farið hamförum í síðustu leikjum.

Skoraði sigurmarkið gegn Flensburg

Viggó innsiglaði sigurinn á Flensburg í gær með sigurmarki á síðustu sekúndu, 31:30. Hann skoraði níu mörk og átti sex stoðsendingar. Meðal handknattleiksáhugamanna á Twitter er nú farið að tala um komu Viggó til Leipzig í sumar sem ein bestu félagaskipti tímabilsins.

Mega ekki ofmetnast

Næsti leikur Leipzig verður á útivelli á móti GWD Minden sem er í næst neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar. „Leikurinn við Minden á útivelli á næsta laugardag er mjög mikilvægur. Minden er í næsta neðsta sæti og tap fyrir þeim myndi setja stórt strik í reikninginn á þeirri siglingu sem við erum á um þessar mundir. Við vorum á sama stað og Minden fyrir mánuði. Núna megum við ekki gleyma okkur í velgengni síðustu vikna. Menn mega ekki ofmetnast heldur halda sig á jörðinni,“ sagði Rúnar Sigtryggsson þjálfari Leipzig í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -