- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Skall á stönginni og var flutt á sjúkrahús – Slapp við beinbrot

- Auglýsing -

Betur fór en á horfðist þegar Matea Lonac, markvörður KA/Þórs, skall á stönginni er hún var að hlaupa til baka í markið í tapi liðsins fyrir Val í Olísdeild kvenna í N1 höllinni á Hlíðarenda í gær. Lonac fékk heilahristing en slapp við beinbrot.

„Ég er á flugvellinum á Akureyri. Hún er í loftinu og er að lenda. Hún fór með sjúkrabíl upp á sjúkrahús, eðlilega. Hún datt aðeins út, missti meðvitund í svona 3-4 sekúndur. Hún man ekki alveg eftir þessu sjálf.

Menn voru bara hræddir um allt. Ef þú hefur séð þetta á vídjói þá var þetta svaðalegt djöfulsins högg á kinnbeinið og hausinn, sem fór fyrstur í stöngina. Menn voru hræddir um að þetta væri eitthvað brot,“ sagði Jónatan Þór Magnússon þjálfari KA/Þórs í samtali við handbolta.is fyrir stundu.

Lýsir ástandinu á sjúkrahúsinu okkar

„Til að gera ógeðslega langa sögu stutta beið hún til hálf tólf í gærkvöldi til þess að fá að fara í skoðun og myndatöku. Það lýsir ástandinu á sjúkrahúsinu okkar. Svo fór hún í bæði segulómun og röntgen.

Þetta fór það vel að það var hvorki kjálkabein né kinnbein sem brotnuðu. Hún fékk skurð á augað og það var engin blæðing á heila. Þannig að þetta fór betur heldur en menn voru hræddir um fyrst.

Hún átti sögu fyrir. Hún er ítrekað búin að lenda í höfuðmeiðslum þannig að þetta var ekki það besta sem gat komið fyrir hana. Við vitum í rauninni ekkert hvað gerist svo í framhaldinu, hvað hún þarf að vera lengi í pásu og hvort hún komi sér á lappir aftur. Það verður bara að koma í ljós,“ hélt hann áfram.

Jónatan Þór Magnússon þjálfari KA/Þórs. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net

Glöð að hún sé ekki stórslösuð

Jónatan Þór sagði óvissu ríkja um hvenær mætti vænta þess að Lonac geti snúið aftur á völlinn.

„Við vitum ekkert um endurheimtar tímann. Hún fékk náttúrlega heilahristing þannig að staðan verður stöðugt metin næstu daga og vikur.

Eins og þetta leit út í gær og upplifun okkar allra þá var þetta svo svakalegt að við erum bara svo glöð að hún sé ekki stórslösuð. Ég get sagt það að ég er búinn að stýra ansi mörgum handboltaleikjum í gegnum tíðina og hef alveg upplifað mikið sjálfur.“

Leikurinn endaði þarna hjá okkur

Valur vann að lokum 15 marka sigur.

„Leikurinn endaði þarna hjá okkur. Stemningin hjá Valsliðinu var ekki mikil fyrir en okkar leikur breyttist. Ég fann það meira að segja hjá sjálfum mér að þetta var svo ótrúlega óhugnanlegt.

Ég er ánægður að hún sé núna á batavegi. Hún var ekkert lögð inn, hún var bara á deildinni þar til hún fékk skoðun og það var hægt að útiloka það versta.

Við erum ánægð með það eins og er þó að þetta þýði að hún verði ekkert með okkur í næstu leikjum, sem eru ofsalega stórir fyrir okkur. Við þurfum að spila bikarleik og fleira en það verður bara að hafa sinn gang,“ sagði Jónatan Þór Magnússon að lokum í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -