- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Skimun, sóttkví og fyrsta æfing síðdegis

Ýmir Örn Gíslason er einn landsliðsmanna Íslands. Mynd/Guðmundur Lúðvíksson
- Auglýsing -

Síðdegis í dag kemur íslenska landsliðið í handknattleik karla saman til fyrstu æfingar vegna undirbúnings vegna tveggja leikja við Portúgal í undankeppni EM 2022 og í framhaldinu þátttöku á HM í Egyptalandi.

Landsliðsmenn, þjálfarar og starfsmenn fóru í skimun í morgun og þaðan beint í „búbblu“ eða sameiginlegt mengi á hóteli þar sem hópurinn býr saman í svokallaðari vinnustaðasóttkví næstu daga. Um leið og niðurstaðan úr skimuninni í morgun liggur fyrir getur fyrsta æfingin farið fram. Vonir standa til þess að niðurstaða liggi fyrir um miðjan dag svo æfing geti hafist klukkan fimm.


Allir leikmenn íslenska landsliðsins eru komnir til landsins að þremur undanskildum sem væntanlegir eru í dag. Það eru Ólafur Andrés Guðmundsson, Arnór Þór Gunnarsson og Elliði Snær Viðarsson. Allir voru þeir í leikjum rétt fyrir áramótin.


Aftur verður æft á morgun en á þriðjudagsmorgun heldur íslenska landsliðið til Portúgal þar sem það mætir landsliði heimamanna í undankeppni EM á fimmutdaginn. Að leiknum loknum verður haldið aftur heim til Íslands þar sem vonandi skapast tækifæri til æfinga áður en flautað verður til síðari leiksins við Portúgal í Schenkerhöllinni á Ásvöllum á sunnudaginn eftir viku. Sú viðureign verður einnig liður í undankeppni EM.


Daginn eftir leikinn á Ásvöllum verður lagt af stað til Egyptlands. Flogið verður í rauðabítið til Kaupmannhafnar og þaðan áfram til Kaíró.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á HM verður fimmtudaginn 14. janúar við landslið Portúgal. Semsagt þriðji leikur liðanna á átta dögum í þremur löndum. Hinn 16. janúar mætir íslenska landsliðið Alsírbúum og tveimur dögum þar á eftir verður leikið við landslið Marokkó.

Guðmundur Þórður Guðmundsson valdi í 21 leikmann til æfinga 15. desember. Þeir eru:

Markverðir:
Ágúst Elí Björgvinsson, KIF Kolding 31/0
Björgvin Páll Gústavsson, Haukum 230/13
Viktor Gísli Hallgrímsson, GOG 18/0
Vinstra horn:
Bjarki Már Elísson, Lemgo 71/165
Oddur Gretarsson, Balingen-Weilstetten 18/31
Vinstri skyttur:
Aron Pálmarsson, Barcelona 149/579
Ólafur Andrés Guðmundsson, IFK Kristianstad 123/230
Magnús Óli Magnússon, Val 6/6
Miðjumenn:
Elvar Örn Jónsson, Skjern 35/92
Gísli Þorgeir Kristjánsson, SC Magdeburg 24/32
Janus Daði Smárason, Göppingen 46/66
Hægri skyttur:
Alexander Petersson, Rhein-Neckar Löwen 181/719
Kristján Örn Kristjánsson, PAUC-Aix, 7/13
Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg 47/129
Viggó Kristjánsson, Stuttgart 11/21
Hægra horn:
Arnór Þór Gunnarsson, Bergischer HCC 114/332
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Vive Kielce 28/52
Línumenn:
Arnar Freyr Arnarsson, MT Melsungen 52/69
Elliði Snær Viðarsson, Gummersbach 6/4
Kári Kristján Kristjánsson, ÍBV 145/178
Ýmir Örn Gíslason, Rhein-Neckar Löwen 42/20

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -