Óðinn Þór átti stórleik þegar hann varð í dag þriðja árið í röð svissneskur meistari í handknattleik með Kadetten Schaffhausen. Óðinn Þór skoraði 11 mörk í þriggja marka sigri Kadetten á BSV Bern, 40:37, í þriðja og síðasta úrslitaleik liðanna um meistaratitilinn sem fram fór í Schafffhausen.
Framlengja varð viðureignina því leikmenn BSV Bern voru ekki tilbúnir að gefa eftir sinn hlut átakalaust.
Af mörkunum ellefu skoraði Óðinn Þór sjö sinnum úr vítakasti. Hinn gamalreyndi Luka Maros skoraði 10 mörk fyrir Kadetten. Maros hefur verið hjá félaginu í áratug.
Þar með hefur Kadetten orðið meistari í Sviss í 15. skipti alls frá 2005 þegar fyrstu titillinn vannst. Liðið hefur unnið fjögur ár í röð, þar af þrjú ár í röð með Óðin Þór innanborðs en hann kom til félagsins sumarið 2022 að loknu góðu tímabili með KA.