Slóvenar hreinlega kjöldrógu nágranna sína frá Króatíu í fyrsta leik milliriðlakeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik Arena Stozice í Ljubljana í kvöld og unnu með átta marka mun, 26:18, eftir að hafa verið mest níu mörkum yfir. Aðeins var eins marks munur á liðunum að loknum fyrri hálfleik, 13:12.
Slóvenar skoruðu fjögur fyrstu mörkin áður Króatar komust á blað. Eftir að leikmenn Króata fundu leiðina að slóvenska markinu jafnaðist leikurinn. Staðan var fyrst jöfn, 7:7, og Króatíu náðu fyrst yfirhöndinni, 9:8. Eftir það skiptust liðin á að vera marki yfir og voru Slóvenar markinu fremri eftir 30 mínútur, 13:12.
Króötum gekk illa að skora í síðari hálfleik. Þegar 15 mínútur voru liðnar voru Slóvenar yfir, 19:13. Samt höfðu tvö vítaköst farið forgörðum.
Nenad Sostaric, hinn reyndi þjálfari Króata, tók síðasta leikhlé sitt rúmlega 12 mínútum fyrir leikslok þegar lið hans var sjö mörk undir, 20:13. Í kjölfarið tókst Tjasa Stanko að skora 13. mark Króata en það var aðeins annað mark liðsins á 21 mínútna kafla. Markið kveikti ekki á liðinu.
Leikur Króata hrundi algjörlega í síðari hálfeik. Liðið fann ekkert svar við framúrskarandi varnarleik slóvenska liðsins. Fyrir afan vörnina stóð Tea Pijevic markvörður sem valin var maður leiksins.
Mörk Króatíu: Valentina Blazevic 5 (öll í fyrri hálfleik), Ana Debilic 3, Andrea Simara 2, Katarina Pavlovic 2, Setla Posavec 2, Paula Posavec 1, Tena Japundza 1, Katarina Jezic 1, Kristina Prkacin 1.
Varin skot: Arma Pandiz 12, 44% – Maja Vojnovic 1, 33% – Branka Zec 0.
Mörk Slóvena: Ana Gros 7, Natasa Ljepoja 5, Tamara Mavsar 4, Valentina Klemencic 3, Elizabeth Omoregie 2, Erin Novak 1, Tjasa Stanko 1, Nina Zulic 1, Alja Varagic 1, Barbara Lazovic 1.
Varin skot: Tea Pijevic 11, 38% – Ivana Kapitanovic 0.
Staðan í milliriðlum EM og leikjadagskrá.