Stjarnan og Fram mætast í úrslitaleik Poweradebikars karla í handknattleik á Ásvöllum klukkan 16 í dag. Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma.
Stjarnan hefur níu sinnum leikið til úrslita í bikarkeppni karla og fjórum sinnum unnið.
Páll þjálfaði – Eyjamenn áberandi
Fyrsti sigur Stjörnunnar í bikarúrslitaleik var 1987 og þá einmitt í úrslitaleik við Fram, 26:22. Páll Björgvinsson, sem gert hafði garðinn frægan sem einn af betri leikmönnum Víkings og landsliðsins um árabil, var þjálfari bikarmeistaraliðs Stjörnunnar. Tveir Eyjamenn voru burðarásar Stjörnunnar í leiknum, Gylfi Birgisson sem var markahæstur með níu mörk, og markvörðurinn Sigmar Þröstur Óskarsson.
Systkini fyrirliðar og bikarmeistarar
Tveimur árum síðar vann Stjarnan bikarkeppnina bæði í karla- og kvennaflokki. Lið félagsins lagði FH, 20:19, í karlaflokki og 19:18 í kvennaflokki. Systkinin Guðný og Skúli Gunnsteinsbörn tóku við bikarnum hvort fyrir sitt lið og fetuðu í fótspor föður sína Gunnsteins Skúlasonar sem varð bikarmeistari með Val nokkrum árum áður.
Tvö ár í röð
Síðast vann Stjarnan bikarinn árið 2007, vann reyndar einnig árið á undan. Svo merkilega vill til að árið 2007 vann Stjarnan liðsmenn Fram í úrslitaleik, 27:17, í Laugardalshöll.
Árið 2007 var Stjarnan með afar vel skipað á lið enda draup smjör af hverju strái í samfélaginu. Roland Eradze, Tite Kalandaze, David Kekelia og Patrekur Jóhannesson voru helstu trompin. Kristján Halldórsson, nú í síðari tíð betur þekktur sem árvökull eftirlitsmaður á kappleikjum, var þjálfari Stjörnunnar síðara árið. Samkvæmt talnaglöggum manni varði Roland 30 skot í marki Stjörnunnar í stórsigrinum á Fram 2007, 27:17.

Síðast lék Stjarnan til úrslita í bikarkeppninni árið 2020 undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar nú þjálfara Leipzig í Þýskalandi. Liðið tapaði þá fyrir ÍBV, 26:24, í einum allra síðasta handboltaleik keppnistímabilsins. Tandri Már Konráðsson er sennilega sá eini úr Stjörnuliðinu fyrir fimm árum sem tekur þátt í úrslitaleiknum í dag.
Úrslitaleikur Stjörnunnar og Fram í Poweradebikar karla hefst á Ásvöllum í dag klukkan 16.