Handknattleikskonan Sonja Lind Sigsteinsdóttir hefur endurnýjað samning sinn við Hauka til nokkurra ára, eins og segir í tilkynningu félagssins. Sonja Lind, sem leikur í hægra horni, gekk á ný til liðs við Hauka fyrir hálfu þriðja ári eftir að spreytt sig hjá Stjörnunni.
Sonja Lind er annar af tveimur hægri hornakonum Haukaliðsins. Hún hefur átt sæti í yngri landsliðunum síðustu árin og var m.a. í U20 ára landsliðinu sem hreppti sjöunda sæti á HM á síðasta sumri eftir að hafa tapað naumlega fyrir Ungverjum í framlengdum leik um sæti í undanúrslitum.
Sonja Lind hefur staðið í ströngu með Haukum á leiktíðinni. Liðið er í baráttu á þrennum vígstöðvum um þessar mundir, þ.e. í Olísdeildinni, Poweradebikarnum og í Evrópubikarnum þar sem Haukar eru komnir í átta liða úrslit.