Íslenska karlalandsliðið í handknattleik hafnar í þriðja sæti á komandi Evrópumóti standist spá sem birtist á heimasíðu mótsins. Evrópumótið fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og hefst á fimmtudag.
Ísland leikur í F-riðli í Kristianstad ásamt Ítalíu, Póllandi og Ungverjalandi. Fyrsti leikur verður á föstudag gegn Ítalíu.
Sextán ár eru liðin frá því að íslenska liðið vann síðast til verðlauna, á EM 2010, og hreppti þar bronsverðlaun.
Gangi spá Björns Pazens, sérfræðings Handknattleikssambands Evrópu fyrir Evrópumótið eftir, mun Ísland endurtaka leikinn í ár.
Gísli og Ómar leiða Ísland í undanúrslit
„Fyrir 16 árum vann Ísland til sinna fyrstu og hingað til einu verðlauna á Evrópumóti, bronsverðlaun í Austurríki. Síðan þá hafa „Víkingarnir“ stöðugt verið eitt af þeim liðum sem þarf að gæta sig á. Nú þegar allar stærstu stjörnurnar eru heilar heilsu eru möguleikarnir á því að vinna aftur til verðlauna meiri en nokkru sinni fyrr.
Með þrjár stjörnur frá Magdeburg sem hafa fest sig í sessi, þá Gísla Kristjánsson, Ómar Inga Magnússon og Elvar Örn Jónsson, sterkt markvarðatvíeyki í Viktori Hallgrímssyni og Björgvini Páli Gústavssyni, og fjölda stjarna til viðbótar í lykilhlutverkum í topp deildum, hefur Ísland sýnt fram á styrk sinn í undankeppninni.
Liðið á svo auðveldari leið í undanúrslitin og spilar milliriðil sinn í Malmö. Það verða fyrst og fremst einstaklingsgæði Kristjánssonar og Magnússonar sem munu leiða Ísland í úrslitahelgina,“ skrifaði Pazen um Ísland.
Danir verða Evrópumeistarar
Spáir hann Danmörku Evrópumeistaratitlinum og Frakklandi silfurverðlaunum. Svíþjóð tapar svo fyrir Íslandi í leiknum um bronsið fari allt á þann veg sem Pazen ímyndar sér.
F-riðill (Kristianstad Arena, Kristianstad)
16. janúar: Ísland – Ítalía, kl. 17.
16. janúar: Ungverjaland – Pólland, kl. 19.30.
18. janúar: Pólland – Ísland, kl. 17.
18. janúar: Ítalía – Ungverjaland, kl. 19.30.
20. janúar: Pólland – Ítalía, kl. 17.
20. janúar: Ungverjaland – Ísland, kl. 19.30.



