Í fyrsta sinn í 30 ára sögu Evrópumótanna í handknattleik karla verða Spánverjar ekki á meðal þátttakenda í milliriðlakeppninni. Spánverjar, sem léku til úrslita á EM fyrir tveimur árum, sitja eftir í B-riðli. Þeir gerðu jafntefli við Austurríkismenn í lokaumferðinni í kvöld og höfnuðu í þriðja sæti. Króatar og Austurríkismenn taka sæti í milliriðli eitt ásamt Frakklandi og Þýskalandi úr A-riðli og Ungverjum og Íslendingum úr C-riðli.
Eins og nærri má geta er um mikið áfall að ræða fyrir spænska landsliðið. Það tapaði illa fyrir Króötum í fyrstu umferð en náði að vinna slaka Rúmena á sunnudaginn.

Austurríkismenn gáfu Spánverjum engin grið í kvöld. Jafntefli varð niðurstaðan, 33:33, og eru Austurríkismenn sem Íslendingar unnu tvisvar í vináttuleikjum rétt fyrir EM, þar með taplausir eftir þrjá leiki á mótinu. Þeir lögðu Rúmena og náðu svo stigi gegn Króötum á sunnudaginn.
Frakkar og Ungverjar með tvö stig
Frakkar lögðu þýska landsliðið, 33:30, í Berlin og fara áfram með tvö stig eins og Ungverjar. Króatar og Austuríkismenn taka með sér eitt stig hvorir í milliriðla en Þýskaland og Ísland hefja milliriðlakeppnina án stiga.
Lokastöðuna í riðlunum er að finna hér fyrir neðan.