Aron Pálmarsson er þekktasti og besti handknattleiksmaður sem komið hefur inn í danskan handknattleik í a.m.k. áratug. Þetta fullyrðir Peter Bruun Jørgensen, einn sérfræðinga dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2.
„Aron er stærsta nafnið sem komið hefur inn í danska handknattleik í tíu ár. Fullkominn leikmaður sem er vanur að taka þátt í og vinna á stærsta sviði handboltans. Ég hlakka til að fylgjast með honum á,“ segir Jørgensen sem er fyrrverandi landsliðsmaður Dana og hefur m.a. þjálfað GOG og Team Tvis Holstebro.
Það vakti gríðarlega athygli snemma árs þegar Aron samdi við dönsku meistarana til þriggja ára. Samningur hans við félagið kom nokkru eftir að tilkynnt var að Álaborgarliðið hafi samið við stærstu stjörnu danska handboltans, Mikkel Hansen, frá og sumrinu 2022.
Margir bíða nánast með öndina í hálsinum næsta árið eftir að Aron og Hansen leiki saman fyrir félagið.
Fleiri öflugir leikmenn bættust í hópinn hjá Alaborg í sumar en þeir hafa fallið í skuggann við komu Arons og væntanlegum vistaskiptum Hansen eftir ár.
Aalborg-liðið vann meistaratitilinn í Danmörku í vor og náði ævintýralegum árangri í Meistaradeild Evrópu og lék til úrslita.
Aalborg vann meistarakeppnina í Danmörku í gær kvöld þegar liðið mætti bikarmeisturum Mors Thy. Fengu aðdáendur Hafnfirðingsins snjalla sem fylgdust með leiknum að finna reykinn af réttunum sem hann ætlar að bjóða þeim upp á leiktíðinni.