- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stærsti handbolta viðburður á Íslandi frá HM95

Jón Halldórsson formaður handknattleikdeildar Vals, Björgvin Páll Gústavsson, Jóhann Alfreð fundarstjóri, Aron Pálmarsson og Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH á kynningarfundi rétt fyrir hádegið. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Við teljum að þetta verðu stærsti handboltaviðburður sem farið hefur fram hér á landi síðan HM95,“ sagði Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH þegar hann kynnti samvinnu FH og Vals um að heimaleikir beggja liða í Evrópudeildinni í handknattleik karla þriðjudaginn 15. október fari fram í Kaplakrika. Valur leikur við Porto frá Portúgal í fyrri viðureign kvöldsins og verður flautað til leiks klukkan 18.15. FH, sem verður 95 ára þennan tiltekna dag, teflir fram karlaliði sínu gegn Gummersbach í síðari viðureigninni kl. 20.30.

Einn miði á báða leiki

Miðasala á viðburðinn hófst á stubb.is í morgun og er í upphafi seldur passi sem gildir á báða leikin. Miðaverði er stillt í hóf að sögn Jóns Halldórssonar formanns handknattleiksdeildar Vals. Fullorðinsmiði á báða leiki er 5.500 kr og 2.200 fyrir börn. Eins eru til sölu svokallaðir VIP-miðar fyrir 15.000 kr. Fór miðasala líflega af stað fyrir hádegið.

Aðeins 2.200 miðar

Alls verða 2.200 miðar til sölu. Ekki verður hægt að bæta við miðum að sögn Ásgeirs formanns FH. „Fyrstir kemur, fyrstur fær,“ sagði Ásgeir og Jón tók undir með kollega sínum og reiknar með að uppselt verði á viðburðinn. Talsvert hefur borist af fyrirspurnum um miða frá Þýskalandi og viðbúið að nokkur hópur fylgi Gummersbach hingað til lands.

Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach og með liðinu leika m.a. Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson. Mosfellingurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson leikur með Porto og hefur gert það gott í fyrstu leikjum tímabilsins.

Einstök samvinna

Um einstaka samvinnu er að ræða á milli þessara stóru félaga í íslenskum handknattleik. Jón segir hugmyndina hafa kviknað fljótlega eftir að ljóst var að ekki væri hjá því komist að liðin tvö léku heimaleiki í riðlakeppni Evrópudeildar sama dag.

Fleiri kostir skoðaðir

„Við skoðuðum þann kost að leika á hlutlausum velli, til dæmis Laugardalshöll en hurfum fljótlega frá því. Þá stóð eftir að sameinast annað hvort um að leika í Kaplakrika eða í N1-höllinni á Hlíðarenda. Niðurstaðan var að búa til sameiginlegan viðburð í Kaplakrika. Segja má að það sé afmælisgjöf okkar Valsara til FH,“ sagði Jón léttur í bragði á blaðamannfundi félaganna. Hann undirstrikaði að Valur hafi á síðustu árum lagt áherslu á að þátttaka félagsins í Evrópukeppni snerist ekki aðeins um félagið heldur íslensku handboltafjölskylduna í heild, í hvaða félagi sem hún væri.

Leiktímar staðfestir á handboltaveislu FH og Vals í Kaplakrika

Þurfti að hnika til leiktímum

Ásgeir sagði ennfremur að mjög gott samstarf hafi myndast á milli félaganna til þess að standa sem glæsilegast að þessum viðburði. Þá hafi HSÍ lagt sín lóð á vogarskálarnar í samskiptum við Handknattleikssamband Evrópu, EHF, vegna leikjanna, m.a. vegna leiktímanna sem þurfti að hnika til en fastir leiktímar í Evópudeildinni eru 16.45 og 18.45 auk þess sem alla jafna eru ekki tveir leikir í sömu keppnishöll á sama leikdegi.

Útsendingaréttur Evrópuleikja FH og Vals hefur verið seldur

Mikið verður um dýrðir

Mikið verður um dýrðir í Kaplakrika vegna leikjanna og ekki síður vegna 95 ára afmælis FH þar sem leikirnir verða kirsuberið á kökunni. Dagskrá verður frá morgni og fram á kvöld. Úrvals tónlistarmenn munu t.d. halda uppi fjöri fyrir leikina.

„Það verður enginn svikinn af því að mæta á þennan einstaka íþróttaviðburð í Kaplakrika 15. október,“ segja formennirnir einum rómi og glaðir í bragði.

FH og Valur sameinast um heimavöll á 95 ára afmælisdegi FH

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -