Nokkrum af stærstu stjörnum heims í handknattleik karla bregður fyrir í tveimur nýjum myndasögum í Andrésblaði sem verður gefið út í Þýskalandi í næstu viku. Þar er búið að umbreyta þeim öllum í endur.
Blaðið, sem kennt er við Mikka Mús en ekki Andrés Önd í Þýskalandi og verður gefið út 16. janúar, skartar þýsku stjörnunum Juri Knorr og Andreas Wolff, dönsku stórskyttunni Mathias Gidsel, Svíanum Jim Gottfridsson og Norðmanninum Magnus Rød.
Bregður fyrir í tveimur sögum
Í einni sögunni kenna þeir Knorr og Wolff Andrési hvernig á að taka vítakast og í hinni sögunni berjast Knorr, Gidsel, Gottfridsson og Rød við Bjarnabófana sem dulbúa sig sem kvikmyndatökulið.
„Blaðið sameinar heim íþrótta við gildi á við liðsanda, gleðina sem fylgir því að spila og ánægjuna sem fylgir lestri. Það er dásamlegt að við gátum fengið topp íþróttamenn á við Juri Knorr og Andreas Wolff fyrir þessa útgáfu og við vonumst eftir því að þýska liðinu gangi vel á EM,“ segir Johannes Kanty ritstjóri blaðsins í fréttatilkynningu.


