- Auglýsing -
- Auglýsing -

Starf þjálfarans er stór hausverkur

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari er tilbúinn með hernaðaráætlun fyrir leikinn við Serba í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það er bara svipuð stemning og þegar ég var leikmaður. Maður fær alltaf ákveðinn fiðring þegar gengið er inn í keppnishöllina. Á keppnisdegi koma upp allar tilfinningarnar og maður stressaður. Ég vona að svo sé einnig hjá leikmönnum. Úr þessu þarf að vinna þegar á hólminn er komið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í gær.

Snorri stýrir íslenska landsliðinu í fyrsta sinn í dag sem landsliðsþjálfari þegar liðið mætir Serbum í upphafsleik C-riðils Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München.

Snorri Steinn lék 33 landsleik í lokakeppni Evrópumóts frá 2004 til 2016, alls sex mót. Í leikjunum skoraði skoraði Snorri Steinn 143 mörk. Hann er þriðji markahæsti leikmaður Íslands í lokakeppni EM. Snorri Steinn á bronsverðlaun sem leikmaður frá EM 2010.

Hluti af sportinu

„Auðvitað eru menn mismunandi. Sumir eru stressaðir aðrir finna til annarrar líðana þegar kemur að stóru stundinni. Þetta er bara hluti af því að vera í sportinu. Ég lærði það snemma að ýta tilfinningunum ekkert frá mér heldur glíma við þær,“ sagði Snorri Steinn ennfremur þegar handbolti.is hitti hann að máli fyrir æfingu landsliðsins í Ólympíuhöllinni í München í gærmorgun.

Snorri Steinn driplar bolta á æfingu í Ólympíuhöllinni í München í gær. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Hernaðaráætlun liggur fyrir

„Starf þjálfarans er stór hausverkur. Hann er alltaf velta einhverju fyrir sér. Við erum hinsvegar komnir með ákveðna hernaðaráætlun fyrir leikinn. Þegar það er í höfn þá er vissu fargi létt af manni. Með henni stendur maður og fellur. Ég er hinsvegar viss um að ef við náum því fram sem ég stefni á þá tel ég okkur vera betri en Serba,“ sagði Snorri Steinn.

Öflugur miðjumaður

Aðspurður sagði Snorri kosti serbneska liðsins vera þá að liðið virðist vel samæft eftir að hafa verið með sama þjálfarann um nokkurt skeið. Miðjumaðurinn er öflugur. Á honum verður að hafa góðar gætur. „Hann skorar ekki alltaf mörg mörk en hann býr til margt gott. Síðan eru þeir stórir og sterkir í vörninni, fastir fyrir. Við verðum að ná góðu flæði í sókninni,“ sagði Snorri Steinn.

Lengra hljóðritað viðtal við Snorra Stein hér fyrir neðan þar sem hann fer aðeins út í þær breytingar sem hann er gera jafnt og þétt á leik íslenska landsliðsins.

EM í handknattleik karla hófst 10. janúar í Düsseldorf í Þýskalandi og stendur til 28. janúar. 
Leikir Íslands í C-riðli EM í München:
12. jan.: Ísland – Serbía, kl. 17.
14. jan.: Ísland – Svartfj. land, kl. 17.
16. jan.: Ísland – Ungv.land, kl. 19.30.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -