Fyrri leikirnir í 8-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í handknattleik fóru fram á laugardag og sunnudag þar sem baráttan var í hávegum höfð. Mesta spennan var í leik dönsku og ungversku meistaraliðanna, Odense og Györ. Danska liðið var mjög öflugt á heimavelli og var mun betra liðið og hafði fimm marka forskot í hálfleik, 17 – 12. Ungverska liðið mætti mun ákveðnara til leiks í seinni hálfleik og náð hægt og bítandi að minnka muninn. Allt fór í baklás hjá leikmönnum Odense síðustu fimm mínútur leiksins. Gestirnir gengu á lagið og náðu að tryggja sér tveggja marka sigur, 29 – 27.
FTC og Metz áttust við í Ungverjalandi þar sem að gestirnir unnu örugglega með sex marka mun, 32 – 26. Mestu munaði um frammistöðu Hatadou Sako í marki Metz. Þetta var tíundi sigurleikur franska liðsins í röð og ljóst að það verður afar strembið fyrir ungverska liðið að komast í undanúrslit eftir þessi úrslit. Metz tapar sjaldan á heimavelli.
Á sunnudaginn var tvöföld barátta á milli Rúmeníu og Skandinavíu. Í fyrri leik dagsins áttust við Rapid Búkaresti og Evrópumeistarar Vipers. Norsku Evrópumeistararnir höfðu nokkra yfirburði og unnu nokkuð þægilegan sex marka sigur, 31 – 25.
Hin viðureignin var á milli Esbjerg og CSM Búkaresti þar sem að heimakonur í Esbjerg unnu með fjögurra marka mun, 32 – 28. Sigurinn hefði hæglega getað orðið stærri en Esbjergliðið missti niður sjö marka forystu á lokamínútunum.
Úrslit helgarinnar
Odense 27 – 29 Györ (17 – 12).
- Dyggilega studdar af áhorfendum byrjuðu heimakonur leikinn af miklum krafti og komust í 5 – 1.
- Það tók Györ um tíu mínútur að ná sínum vopnum. Ana Gros minnkaði muninn niður í tvö mörk, 12 – 10.
- Ungverska liðið mætti mun ákveðnara til seinni hálfleiks og spilaði öflugri varnarleik. Tíu mínútum fyrir leikslok tókst Györ að jafna metin, 24 – 24.
- Martina Thörn og Bo van Werering héldu uppi leik Odense-liðsins. Það héldu leikmönnum Györ engin bönd síðustu fimm mínútur leiksins. Sandra Toft varði hvert skotið á fætur öðru og Anne Mette Hansen og Csenge Fodor skoruðu mikilvæg mörk.
- Lois Abbing og Bo van Wetering voru markahæstar hjá Odense með sex mörk hvor. Hjá Györ var Ana Gros markahæst með 9 mörk.
FTC 26 – 32 Metz (13 – 15).
- Öflug byrjun hjálpaði Metz að taka forystuna snemma.
- Mesta forysta franska liðsins í fyrri hálfleik var fjögur mörk. Bruna de Paula og Kristina Jørgensen voru öflugar í sóknarleik Metz.
- Hatadou Sako markvörður Metz var með 40% markvörslu í fyrri hálfleik.
- Gestirnir náðu aðeins að klóra í bakkann undir lok fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í eitt mark.
- Þrjár markvörslur í röð hjá Sako og þrjú mörk eftir hraðaupphlaup í kjölfarið í upphafi seinni hálfleiks komu franska liðinu aftur inn á beinu brautina.
- Síðustu þrjár mínútur leiksins voru mikilvægar fyrir Metz. Á þeim tíma náði Metz að breyta stöðunni úr, 28 – 25 í 32 – 26 sem er gríðarlega mikilvægt fyrir liðið og kemur því í vænlega stöðu fyrir síðari leikinn um næstu helgi.
- Tamara Horacek var markahæst í liði Metz með átta mörk. Hún var jafnframt valin maður leiksins. Hjá FTC var Emily Bölk markahæst með sjö mörk.
Rapid Búkaresti 25 – 31 Vipers (12 – 18).
- Vendipunktur leiksins varð undir lok fyrri hálfleiks þegar að Vipers skoraði fimm mörk gegn einu og fór með sex marka forystu inn í hálfleikinn, 18 – 12.
- Heimakonur reyndu hvað þær gátu að stöðva öflugan sóknarleik norska liðsins en þurftu að lokum að játa sig sigraða í fyrsta sinn á heimavelli á þessari leiktíð.
- Marketa Jerabkova átti enn einn stórleikinn fyrir Vipers. Hún skoraði sex mörk og er þar með búin að ná að rjúfa 100 marka múrinn á leiktíðinni. Hún er fjórði leikmaðurinn sem nær þeim áfanga. Hinar eru Henny Reistad, Cristina Neagu og Katrin Kljuber.
- Þetta var aðeins fjórði tapleikur Rapid í Meistaradeildinni á þessari leiktíð.
- Rúmenska liðið á erfitt verkefni fyrir höndum í seinni leiknum í Noregi. Vipers er mjög öflugt og hefur til að mynda unnið alla sjö heimaleiki sína í Meistaradeildinni á keppnistímabilinu og hefur alls unnið 13 af síðustu 15 heimaleikjum í Meistaradeildinni.
Esbjerg 32 – 28 CSM Búkaresti (17 – 13).
- Líkt og á síðustu leiktíð þá náði Esbjerg að vinna fyrri leik þessara liða í 8-liða úrslitum. Munaði þar mestu um 3 – 0 kafla frá tólftu mínútu til þeirrar sautjándu.
- Nora Mørk var markahæst hjá Esbjerg með átta mörk. Hjá CSM skoruðu þær Emily Arntzen og Cristina Neagu samanlagt 17 mörk.
- Það tók Cristinu Neagu aðeins sex mínútur til þess að verða næst markahæsti leikmaðurinn í sögu Meistaradeildar kvenna. Þar með tók hún framúr ungversku goðsögninni Anitu Görbicz sem náði að skora 1.016 mörk á sínum ferli með Györ.
- Sigurinn veitir danska liðinu frumkvæði í kapphlaupinu um farseðilinn til Búdapest, ekki síst þegar litið er til þess að liðið hefur aldrei tapað með meira en tveggja marka mun í Meistaradeildinni á þessari leiktíð.
- Róður CSM að sæti í Final4 verður þungur en svo langt í keppninni hefur liðið ekki náð síðan á tímabilinu 2017/18. Víst er þó að liðið fær dygga hvatningu frá sínum stuðningsmönnum en það er fyrir löngu uppselt á seinni leikinn um næstu helgi. Miðarnir runnu út eins heitar lummur á aðeins 30 mínútum.