Á dögunum var sagt frá því að ÍR hafi samið við Sif Hallgrímsdóttur markvörð fyrir næstu leiktíð í Olísdeildinni. Fyrir eru hjá ÍR markverðirnir Ingunn María Brynjarsdóttir og Hildur Øder Einarsdóttir.
Ingunn María hyggur á námsdvöl í Danmörku frá hausti og til ársloka og mun ekki verja mark ÍR fyrr en eftir áramót.
Hildur sagði við handbolta.is að engan bilbug væri á sér að finna. Hún væri í fæðingarorlofi frá handbolta um þessar mundir en stefndi ótrauð á að mæta til leiks með ÍR um leið og hún hefði tök á.
„Það er aldrei slæmt að hafa nóg af markmönnum,“ segir Hildur sem einnig hefur leikið með Selfossi og Stjörnunni. Hin síðari ár hefur Hildur varið mark ÍR og m.a. verið einstaklega klók í að verja vítaköst.
ÍR varð í fjórða sæti Olísdeildar kvenna á síðustu leiktíð og komst í undanúrslit úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn. Grétar Áki Andersen tekur við þjálfun ÍR-liðsins af Sólveigu Láru Kjærnestd.
Olísdeild kvenna – fréttasíða.