- Auglýsing -

Stefnt að keppni í 2. deild karla og kvenna í vetur

- Auglýsing -


Reikna má með að 11 lið taki þátt í keppni í 2. deild karla á komandi leiktíð. Í tilkynningu frá HSÍ segir að stefnt sé að því að leikjaniðurröðun verði tilbúin í byrjun september. Eingöngu verður leikin deildarkeppni og þarf henni að ljúka eigi síðar en 1. maí.


Liðunum verður veitt ákveðið svigrúm við val á leikdögum en mótanefnd mun hafa strangara eftirlit en áður, til að tryggja að deildin fari fram á sem skipulegastan og jafnastan hátt. Sannast sagna hefur margt í keppni 2. deildar verið laust í reipum síðustu tímabil og hefur handbolti.is m.a. nær því gefist upp á fylgjast með framvindu keppninnar. Tölfræði hefur verið röng í nokkrum leikjum, skráning úrslita verið með höppum og glöppum auk þess sem leikjadagskrá var tilviljanakennd.

Reiknað er með að fyrstu leikir 2. deildar fari fram síðari hluta september.

2. deild kvenna í undirbúningi

Fimm félög hafa sýnt áhuga á að taka þátt í 2. deild kvenna en keppni í deildinni hefur legið niðri undanfarin ár.

Stefnt er að því að hefja deildina strax á þessu tímabili. Frestur til að staðfesta þátttöku er í byrjun september og myndi keppni deildarinnar spanna tímabilið frá 1. október til 1. maí. Áætlaður leikjafjöldi er 12–16 leikir. Endanleg tala fer eftir fjölda liða sem skrá sig til leiks.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -