„Ég er gríðarlega stoltur af liðinu og leik þess í dag en einnig af liðsheildinni. Það er ekkert auðvelt að vinna landsleik með svona miklum mun og við gerðum að þessu sinni,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U19 ára landsliðsins eftir 22 marka sigur á liði Norður Makedóníu á Evrópumótinu í Potgorica í Svartfjallalandi, 46:24.
Þurftum 18 marka sigur
„Við þurftum að vinna með að minnsta kosti 18 marka mun til þess að vera örugg um sæti á meðal sextán efstu á mótinu og tryggja okkur HM-sæti að ári. Við fórum mjög vel yfir málin með stelpunum í hálfleik þegar við vorum 14 mörkum yfir að ekki mætti slaka á,“ sagði Ágúst Þór.

Neðri röð f.v.: Ásthildur Þórhallsdóttir, Sara Lind Fróðadóttir, Dagmar Guðrún Pálsdóttir, Gyða Kristín Ásgeirsdóttir, Ingunn María Brynjarsdóttir, Arna Karítas Eiríksdóttir, Þóra Hrafnkelsdóttir og Bergrós Ásta Guðmundsdóttir. Ljósmynd/HSÍ
Gríðarleg einbeiting
„Stelpurnar mættu gríðarlega vel einbeittar til leiks. Varnarleikurinn var frábær sem skilaði sér í miklum fjölda hraðaupphlaupa. Til viðbótar var sóknarleikurinn vel út færður gegn framliggjandi vörn Norður Makedóníu. Við opnuðum vörnina hvað eftir annað og skutum vel á markið.“
Mark fyrir mark
Ágúst Þór segir að mikinn aga og einbeitingu þurfi til þess að vinna landsleiki með svo miklum mun, ekki síst þegar mikið er undir eins og var í dag. „Stelpurnar voru einbeittar allan leiktímann og unnu sig áfram, mark fyrir mark. Þetta var þolinmæðis vinna.

Stóra markmiðið er í höfn
Þar með höfum við náð stóra markmiði okkar, að ná HM sæti á næsta ári og lengja þar með landsliðstíma þessa árgangs um eitt ár. Ég er stoltur af þeim árangri,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.
Framhaldið skýrist í kvöld
„Stelpurnar eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðuna og frábæra liðsheild sem skilaði þessum frábæra árangri. Nú njótum við aðeins það sem eftir er dagsins en hefjum undirbúning snemma í fyrramálið. Í kvöld verður ljóst hver verður næsti andstæðingur okkar á fimmtudaginn,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U19 ára landsliðs kvenna. Samstarfsmaður hans er Árni Stefán Guðjónsson.
Ásthildur skoraði 18 mörk í stórsigri – HM farseðill í höfn
EM19-’25: Milliriðlar, úrslit og staðan