Stjarnan tók á ný forystuna gegn Aftureldingu í umspili Olísdeildar kvenna í kvöld með sannfærandi sigri í Hekluhöllinni, 33:26, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12.
Stjarnan hefur þar með tvo vinninga og vantar einn í viðbót til þess að halda sæti sínu í Olísdeildinni á næstu leiktíð.
Næsta viðureign liðanna verður á föstudagskvöld að Varmá og verður einn fjögurra leikja það kvöldið í hreint dæmalausri leikjadagskrá sem sem til stendur að bjóða upp á. Takist Aftureldingarliðinu að vinna kemur til oddaleiks í Hekluhöllinni á mánudaginn.
Ólíkt fyrri leikjum liðanna þá missti Stjarnan ekki niður dampinn þegar kom fram í síðari hálfleik. Liðið var með yfirhöndina frá byrjun til enda og hleypti Aftureldingarliðinu aldrei upp á dekk.
Tinna Sigurrós Trauastadóttir lék með Stjörnunni að þessu sinni. Hún var fjarverandi í tveimur fyrstu leikjum liðanna. Munar Stjörnunni svo sannarlega um minna að hafa endurheimt Tinnu Sigurrós.
Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 10, Eva Björk Davíðsdóttir 7, Anna Karen Hansdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Vigdís Arna Hjartardóttir 4, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 1, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 12.
Mörk Aftureldingar: Hulda Dagsdóttir 9, Katrín Helga Davíðsdóttir 8, Anna Katrín Bjarkadóttir 3, Fanney Ösp Finnsdóttir 2, Ragnhildur Hjartardóttir 2, Lovísa Líf Helenudóttir 1, Telma Rut Frímannsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 8, Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir 2.
Tölfræði HBritara.
Umspil Olís kvenna 2025: leikjadagskrá og úrslit