Elmar Erlingsson fór hamförum í kvöld með Nordhorn-Lingen gegn GWD Minden í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Hann skoraði 11 mörk af 31 marki liðsins í naumu tapi, 34:31, á heimavelli. Eftir hnífjafnan leik reyndust leikmenn GWD Minden sterkari síðustu mínúturnar. GWD Minden er í hörðum slag á lokasprettinum við Hüttenberg um annað sæti deildarinnar og að fylgja Bergischer HC upp í efstu deild.
Elmar skoraði mörkin 11 í 13 skotum. Tvö markanna skoraði Elmar frá vítalínunni. Vafalaust er þetta einn besti leikur Elmars fyrir Nordhorn en hann kom til félagsins fyrir leiktíðina.
Nordhorn er í 7. sæti þegar tveimur umferðum er ólokið með 33 stig. Hüttenberg og GWD Minden eru jöfn að stigum, hafa 43 hvort í öðru til þriðja sæti, 11 stigum á eftir Bergischer HC.
Áfram á sigurbraut
Liðsmenn Arnórs Þórs Gunnarsson hjá Bergischer HC unnu VfL Lübeck-Schwartau, 29:28, á útivelli í 2. deild í gærkvöld. Arnór Viðarsson var í leikmannahópi Bergischer HC en skoraði ekki. Tjörvi Týr Gíslason var ekki með Bergischer.
Bergischer HC hefur fyrir nokkru síðan tryggt sér efsta sæti deildarinnar og þar af leiðandi þátttökurétt í efstu deild á næstu leiktíð.
Staðan í 2. deild karla í Þýskalandi: