Íslandsmeistarar Vals unnu stórsigur á Stjörnunni í annarri umferð Ragnarsmótsins í handknattleik kvenna í Sethöllinni í kvöld, 44:21, og hefur þar með tvo vinninga eftir tvo leikdaga af þremur. Yfirburðir Valsliðsins voru afar miklir frá upphafi til enda. Þrettán marka munur var að loknum fyrri hálfleik, 26:13.
Í hinum leik kvöldsins vann Selfoss lið Aftureldingar, 34:30, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 16:15. Selfoss og Afturelding hafa þar með unnið einn leik hvort á mótinu. Síðustu leikir Ragnarsmóts kvenna fara fram annað kvöld.
Skugga bar á sigurinn
Það varpaði skugga á sigur Vals að Mariam Eradze meiddist á 10. mínútu síðari hálfleiks og kom ekkert meira við sögu. Óttast er að meiðsli hennar kunni að vera alvarleg. Sé svo er um mikið áfall að ræða fyrir Íslandsmeistarana.
Miklar breytingar
Stjarnan, sem stillir upp talsvert breyttu liði frá síðasta keppnistímabili eftir brotthvarf sterkra leikmanna, hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á mótinu og mætir Selfossi í lokaumferðinni annað kvöld.
Hafdís Renötudóttir, Lovísa Thompson, Thea Imani Sturludóttir, Morgan Marie Þorkelsdóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir léku ekki með Val að þessu sinni. Þrjár þær fyrstnefndu voru heldur ekki með í fyrsta leiknum á mánudaginn þegar Valur vann Selfoss.
Selfoss sterkara frá upphafi
Selfoss var með frumkvæðið frá upphafi í viðureign sinni við Aftureldingu í síðari leik kvöldsins. Aftureldingarliðinu tókst að minnka forskotið niður í eitt mark fyrir hálfleik, 16:15, en lánaðist ekki að fylgja því eftir í upphafi síðari hálfleiks. Vörn Selfoss liðsins reyndist Mosfellingum erfið auk þess sem Cornelia Hermansson varði vel í marki Selfoss. Mestur varð munurinn sex mörk, 28:22, áður en Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari Aftureldingar tók leikhlé.
Eftir hléið sóttu leikmenn Aftureldingar í sig veðrið og tókst að koma forskoti Selfoss niður í þrjú mörk, 30:27. Í þeirri stöðu átti Afturelding þess kost að minnka muninn í tvö mörk. Möguleikinn rann leikmönnum úr greipum og Selfoss bætti í forskot sitt.
Perla Ruth Albertsdóttir fór á kostum í liði Selfoss. Hún meiddist á ökkla undir lok leiksins en vonandi ekki alvarlega.
Selfoss – Afturelding 34:30 (16:15).
Mörk Selfoss: Perla Ruth Albertsdóttir 13, Harpa Valey Gylfadóttir 6, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 4, Katla María Magnúsdóttir 4, Hulda Hrönn Bragadóttir 3, Arna Kristín Einarsdóttir 2, Katla Björg Ómarsdóttir 1, Rakel Guðjónsdóttir 1.
Varin skot: Cornelia Hermansson 13.
Mörk Aftureldingar: Hildur Lilja Jónsdóttir 7, Susan Ines Gamboa 7, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 6, Anna Katrín Bjarkadóttir 3, Drífa Garðarsdóttir 2, Fanney Ösp Finnsdóttir 1, Katrín Helga Davíðsdóttir 1, Lovísa Líf Helenudóttir 1, Saga Úlfarsdóttir 1, Sylvía Björt Blöndal 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 6, Tori Lynn Gísladóttir 1.
Valur – Stjarnan 44:21 (26:13).
Mörk Vals: Elín Rósa Magnúsdóttir 8, Lilja Ágústsdóttir 7, Hildur Björnsdóttir 6, Mariam Eradze 6, Auður Ester Gestsdóttir 4, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 4, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 4, Arna Karitas Eiríksdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 1.
Varin skot: Arna Sif Jónsdóttir 6, Sara Sif Helgadóttir 6.
Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 5, Embla Steindórsdóttir 3, Hekla Rán Hilmisdóttir 3, Helena Rut Örvarsdóttir 3, Anna Karen Hansdóttir 1, Anna Lára Davíðsdóttir 1, Bryndís Hulda Ómarsdóttir 1, Elín Vilhjálmsdóttir 1, Hanna Guðrún Hauksdóttir 1, Marinela Ana Gherman 1, Vigdís Arna Hjartardóttir 1.
Varin skot: Elín R. Eyfjörð Ármannsdóttir 2, Elísabet Millý Elíasardóttir 2.
Leikir síðustu umferðar annað kvöld í Sethöllinni:
Kl. 18: Selfoss – Stjarnan.
Kl. 20: Afturelding – Valur.
Staðan á Ragnarsmóti kvenna.
Selfoss TV sendir út alla leiki Ragnarsmótsins á youtube.