„Með þessari rosalegu stemningu úr stúkunni þá held ég að okkur hafi verið ómögulegt að tapa leiknum. Stuðningurinn gaf okkur svo sjúklega mikinn kraft,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir leikmaður ÍBV í samtali við handbolta.is eftir sigur ÍBV á Val í úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik kvenna í Laugardalshöll í dag, 31:29. Þetta var fyrsti sigur ÍBV í bikarkeppninni í kvennaflokki í 19 ár. Stuðningsmenn ÍBV létu sig ekki vanta né létu þeir sitt eftir liggja.
„Við lögðumst allar á eitt og það hleypti enn meiri krafti í okkur að vinna leikinn þegar Mörtu var vísað af leikvelli fyrir fullt og fast eftir 20 mínútur. Fyrir leikinn vorum við staðráðnar í að vinna og enn meira eftir að hún fór út af. Þá lögðum við allt í sölurnar til þess að vinna bikarinn fyrir Mörtu,“ sagði Birna Berg en markvörður ÍBV, Marta Wawrzykowska, var ranglega útilokuð frá leiknum eftir 20 mínútur.
„Staðan var kannski ekkert spes eftir fyrri hálfleik en karakterinn var frábær í síðari hálfleik að snúa leiknum okkur í hag. Svo fór ég að horfa á markið eftir að hafa ekki verið með í fyrri hálfleik. Þetta er geggjað. Ef ég ég hefði verið beðin um að skrifa handrit að sigrinum þá væri þetta handritið,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir himinsæl með fyrsta bikarmeistaratitilinn með ÍBV í dag.