„Varnarleikurinn í síðari hálfleik er augljóslega það sem fyrst kemur upp í hugann þegar ég lít til baka svona rétt eftir leik til að meta hvað fór úrskeiðis hjá okkur,“ sagði Magnús Stefánsson þjálfari karlaliðs ÍBV við handbolta.is eftir 12 marka tap, 43:31, fyrir Val í úrslitaleik Powerade-bikarsins í handknattleik karla í Laugardalshöll í kvöld.
Á ágætu róli eftir fyrri hálfleik
„Mér fannst við vera á ágætu róli með varnarleikinn að loknum fyrri hálfleik. Í þeim síðari var annað upp á teningnum. Við fengum fáa bolta varða auk þess sem okkur tókst heldur ekki að aðstoða markverðina með varnarleik okkar. Valsmenn gerðu einnig vel í að refsa okkur með hröðum upphlaupum,“ sagði Magnús og tók undir þá skoðun handbolta.is að það væri býsna erfitt að koma böndum yfir leikmenn Vals þegar þeir ná að komast á skrið.
Gekk ekki upp í dag
Magnús sagði úrslitin vera vonbrigði því ÍBV-liðið hafi ætlað sér meira. „Ég er engu að síður stoltur af mínum mönnum. Þeir verða ekki sakaðir um að hafa ekki lagt líf og sál í leikinn. Stundum gengur allt upp, stundum ekki. Svona er lífið. Því miður gekk margt ekki upp hjá okkur í síðari hálfleik í dag.
Til viðbótar er vafalaust margt sem við í þjálfarateyminu verðum að skoða og snýr að okkur og hvað við hefðum getað gert betur,“ sagði Magnús Stefánsson þjálfari karlaliðs ÍBV í samtali við handbolta.is rétt eftir að úrslitaleiknum lauk í Laugardalshöll.
Tengt efni:
Valsmenn fóru illa með Eyjamenn – stórkostlegur leikur Benedikts Gunnars
Síðari hálfleikur var stórkostlegur – stoltur pabbi