„Ég er kominn nokkuð langt með endurhæfinguna og vonast til að spila síðasta æfingarleikinn okkar sem verður í næstu viku,“ sagði Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska 1. deildar liðsins Frish Auf Göppingen við handbolta.is í gærkvöld.
Janus Daði hefur verið frá keppni síðan í janúar þegar hann varð tilneyddur að draga sig út úr íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi vegna meiðsla í hægri öxl. Meiðslin höfðu sett strik í reikning hans um skeið áður en kom að mótinu. Aukið álag eftir því sem á leið keppnistímabilið gerðu illt verra. Fór svo að Janus Daði fór í aðgerð á öxlinni í Stuttgart í febrúar.
„Ef ég næ ekki æfingaleiknum í næstu viku þá verð ég vonandi klár í fyrsta leik í deildinni. Ég hef tekið þátt i æfingum að fullu en tek þó sjaldnar æfingar í salnum en restin af liðinu. Í staðinn eyði ég aðeins meiri tíma í styrk. Framhaldið verður bara koma í ljós með hverri vikuni sem líður,“ sagði Janus Daði sem gekk til liðs við Göppingen fyrir ári eftir að hafa átt afar góðu gengi að fagna með danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold um þriggja ára skeið.
Fyrsti leikur Janusar Daða og samherja í Göppingen í þýsku 1. deildinni á næsta tímabili verður við nýliða HSV Hamburg miðvikudaginn 8. september í Hamborg.