- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Styttist í fyrsta stórmótið

Hákon Daði Styrmisson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Nú er tækifærið framundan. Það styttist í fyrsta mótið,“ sagði Hákon Daði Styrmisson landsliðsmaður í handknattleik glaður í bragði þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir fyrstu æfingu landsliðsins í handknattleik í gær. Það hillir undir fyrsta stórmótið hjá Eyjamanninum sem átti að fara á EM fyrir ári en var svo óheppinn að slíta krossband rétt áður en mótið hófst. Þar með var draumurinn úr sögunni í það skiptið.

Góður bati

Hákon Daði hefur náð góðum bata eftir meiðslin og síðustu mánuði leikið talsvert mikið með Gummersbach í þýsku 1. deildinni og látið nokkuð að sér kveða. Hann hlakkar til að fara á sitt fyrsta stórmót A-landsliða.

Má ekki gleyma mér í handboltanum

„Síðasta árið hefur farið í endurhæfingu. Hún heldur áfram inn í þetta ár. Mér líður betur með hverjum mánuði sem líður. Þess vegna er ekkert til fyrirstöðu að vera með á HM. Maður má samt ekki gleyma sér við að leika aðeins handbolta. Ég verð að vinna áfram í styrkja hnéið og ná upp fullum styrk aftur. Ef ég gleymi mér við endurhæfinguna þá fer allt á verri veginn,“ sagði Hákon Daði sem er á sínu öðru tímabili með Gummersbach eftir að hafa gert garðinn frægan með ÍBV og Haukum hér heima frá táningsaldri.

Leikjadagskrá HM – smellið hér.


Mikil umræða var um það í aðdraganda valsins á landsliðinu skömmu fyrir jól hver myndi hreppa sætið í vinstra horninu með Bjarka Má Elíssyni. Hákon Daði viðurkennir að dagarnir áður en landsliðið var valið hafi verið spennandi. Hann er annar tveggja leikmanna landsliðshópsins sem er að taka þátt í sínu fyrsta heimsmeistaramóti. Hinn er Elvar Ásgeirsson.

Himinlifandi að fá fréttirnar

„Ég beið og beið eftir símtali þar sem úr því væri skorið hvort ég yrði valinn eða ekki. Síðan barst símtalið og mér sagt að ég væri inni þá var þungu fargi af mér létt. Auðvitað vonaði ég það besta en vissi líka að ég gæti ekki gengið að sætinu vísu. Samkeppnin er hörð. Ég ætla ekki að draga dul á að ég var himinlifandi þegar mér var sagt að ég væri inni,“ sagði Hákon Daði sem á nokkur stórmót með yngri landsliðunum.

Forréttindi að vera í þessu hóp

„Fyrst og fremst verða það forréttindi fyrir mig að fá að vera með þessum frábæra hóp á HM. Það ríkir í mér tilhlökkun að fara á mótið, sjá hvernig okkur gengur og hvar við stöndum í samanburði við andstæðingana. Við förum í hvern leik til þess að vinna,“ sagði Hákon Daði sem fer með íslenska landsliðinu til Þýskalands á föstudaginn til tveggja leikja við þýska landsliðið á laugardag og sunnudag í Bremen og Hannover.


„Að leikjunum í Þýskalandi loknum kemur betur í ljós hvar við stöndum og hvar þýska liðið er statt á leið sinni. Ég held að það sé ekkert annað en jákvætt að fá tvo góða leiki áður en við förum yfir til Svíþjóðar,“ sagði Hákon Daði Styrmisson í samtali við handbolta.is í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -