- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Tækninýjungar á Evrópumótinu

- Auglýsing -

Dómarar á Evrópumóti karla í handknattleik í Danmörku, Noregi og Svíþjóð munu njóta liðsinnis ýmissar tækni á því. Stuðst hefur verið við hluta af þessari tækni í áraraðir en eitthvað er um nýjungar, til að mynda „RefCam“ sem sýnir sjónarhorn dómaranna.

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur tilkynnt að dómaramyndavélarnar verði einungis notaðar um úrslitahelgina 31. janúar og 1. febrúar, þegar undanúrslit, úrslit og leikur um bronsverðlaun fara fram.

Í umfjöllun Handball World segir að myndavélum verði þá komið fyrir á höfði dómara og áhorfendur fái að sjá sjónarhorn þeirra þegar við á, í því skyni að áhorfendur geti lifað sig enn betur inn í leikinn.

Myndbandsdómgæsla og myndavélar fyrir skiptingar

Myndbandsdómgæsla, VAR, verður á sínum stað eins og hefur verið tilfellið undanfarin níu ár á stórmótum í handknattleik.

Einnig verður stuðst verður annars konar myndbandstækni, svokallaða „Substitution Area Technology,“ í fyrsta sinn. Örsmáum myndavélum verður komið fyrir á dómaraborðinu sem er ætlað að fylgjast með því hvort lið geri mistök við skiptingar á leikmönnum.

Dómarar geta þá ráðfært sig við upptökur þegar vafi leikur á því hvort lið hafi til að mynda verið með of marga leikmenn inni á vellinum í einu.

Rauð bjalla í stað græns spjalds

Á dómaraborðinu verður komið fyrir rauðum bjöllum sem þjálfarar geta þrýst á þegar þeir vilja taka leikhlé. Tíminn stöðvast tafarlaust og bjallan glymur um leið. Hugmyndin með þessu er að tafir sem geta komið til vegna starfa tímavarðar fækkar umtalsvert.

Misnotkun rauðu bjöllunnar getur varðað refsingum.Ef þrýst er á bjölluna þegar andstæðingur liðs er með boltann verður sá sem gerði það refsað, jafnvel með rauðu spjaldi ef dómarar meta það sem svo að um viljaverk hafi verið að ræða.

Liðið sem var með boltann fær auk þess vítakast og liðið sem þrýsti á bjölluna missir eitt leikhlé.

Marklínutækni og marklínuljós

Marklínutæknin, þar sem skorið er úr um hvort bolti hafi farið allur inn fyrir marklínu eður ei með hjálp myndavéla á markinu, er áfram á sínum stað en marklínuljósum hefur verið bætt við þessa tækni.

LED-ljós blikka í markinu um leið og tíminn er stöðvaður. Ljósin eiga að hjálpa leikmönnum og áhorfendum auk þess að hjálpa dómurum að skera úr um hvort bolti hafi farið inn fyrir marklínu áður en leiktími í sitt hvorum hálfleiknum er úti.

Myndefnið í marklínutækninni er beintengt við vallarklukkuna, sem hjálpar dómurum sömuleiðis að taka snúnar ákvarðanir á lokasekúndum.

Gervigreind hjálpar til

EHF hefur einnig tilkynnt að dómarar hafi fengið sérstaka þjálfun til þess að reyna að stemma stigu við hagræðingu úrslita.

Í baráttunni gegn hagræðingu úrslita styðst EHF auk þess við tæknilausnir, sem eru meðal annars knúnar af gervigreind.

EM 2026.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -