„Á köflum voru of margir tæknifeilar of mörg slök skot. Það er bara ekki í boði gegn jafn sterku liði,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir markahæsti leikmaður Íslands á EM með 21 mark þegar handbolti.is náði af henni tali eftir að íslenska landsliðið féll úr keppni á Evrópumótinu í handknattleik í kvöld eftir 11 marka tap fyrir Þýskalandi í síðustu umferð F-riðils, 30:19, í Ólympíuhöllinni í Innsbruck.
„Okkur tókst að halda í við þær fyrstu 15 mínúturnar en eftir það keyrðu þær hreinlega yfir okkur og sýndu hversu sterkar þær geta verið. Við fengum aðeins að kenna á þeim,” sagði Perla Ruth ennfremur.
Hvað sem leiknum í kvöld líður þá segir Perla María að hún sé afar stolt af hópnum sem hafi skrifað söguna fyrir íslenska kvennahandbolta með þátttöku sinni á EM. „Þegar við hættum að vera tapsárar í kvöld þá munum við verða stoltar yfir þeim skrefum sem við tókum á mótinu. Það hefur verið gaman. Allt í kringum mótið hefur verið gaman. Ég er mjög stoltur Íslendingur,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir landsliðskona í samtali við handbolta.is.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Perlu Ruth inni í þessari grein.
EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða