Thea Imani Sturludóttir tryggði Val jafntefli, 25:25, gegn spænska liðinu Málaga Costa del Sol í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í kvöld. Leikið var á Málaga. Thea Imani skoraði jöfnunarmarkið í æsilega spennandi leik þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka. Síðari viðureignin verður í N1-höll Vals á Hlíðarenda eftir viku.
Miðað við frammistöðuna í dag og þá staðreynd að leikmenn vantar í Valsliðið verður að telja möguleika Vals á sæti í átta liða úrslitum vera þokkalega.
Valur tók leikhlé þegar 10 sekúndur voru eftir í framhaldi af því að Málaga Costa del Sol komst yfir, 25:24. Vel útfært leikkerfi lauk með því að Thea Imani lyfti sér upp fyrir framan miðja vörnina og hamraði boltann í netið, 25:25.
Áður hafði Þórey Anna Ásgeirsdóttir jafnað metin, 24:24, en Valsliðið var með yfirhöndina lengst af í leiknum. M.a. var staðan 15:13 fyrir Vals sem tók frumkvæðið strax í upphafi viðureignarinnar sem leikin var fyrir framan fullt hús áhorfenda.
Valsliðið varð fyrir blóðtöku snemma í síðari hálfleik þegar Hildur Björnsdóttir fékk sína þriðju brottvísun.
Málaga Costa del Sol varð spænskur meistari vorið 2023 og situr um þessar mundir í öðru sæti efstu deildar, einu stigi á eftir BM Elche. Meistarar síðasta árs, Amara Bera Bera, eru í þriðja sæti með jafn mörg stig og Málaga Costa del Sol.
Mikil reynsla er í liði Málaga Costa del Sol sem vann Evrópubikarkeppnina vorið 2021 og hafnaði í öðru sæti árið eftir.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6, Thea Imani Sturludóttir 5, Elín Rósa Magnúsdóttir 5, Lovísa Thompson 4, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Arna Karítas Eiríksdóttir 2, Ásthildur Þórhallsdóttir 1.
Varin skot: Engar upplýsingar liggja á lausu.
Leikurinn var í streymi: