Þegar Einar Rafn Eiðsson skoraði 17 mörk í 20 skotum fyrir KA á dögunum – í leik gegn Gróttu á KA-heimilinu á Akureyri, 33:33, rifjaðist upp 40 ára gamalt markamet Alfreðs Gíslasonar, sem skoraði 21 mark í leik fyrir KR gegn KA 1982.
Áður en lokaleikirnir á Íslandsmótinu í handknattleik 1981-1982 voru leiknir, var mest rætt og ritað um lokaleikinn milli Víkings og FH um Íslandsmeistaratitilinn í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Þá var minnst á markakóngseinvígi á milli Kristjáns Arasonar og Alfreðs Gíslasonar, en engin minntist á markamet Ingólfs Steinars Óskarssonar frá 1963, er hann skoraði 20 mörk fyrir Fram í leik gegn ÍR. Það met þótti ekki í sjónmáli og litlar líkur á því að það yrði bætt.
Greinahöfundur skrifaði í DV: „Markakóngsbaráttan stendur á milli Kristjáns og Alfreðs. Þessir snjöllu landsliðsmenn eiga nú eftir að leika einn leik — Kristján gegn Víkingi og Alfreð gegn KA. Kristján hefur skorað 91 mark og Sigurður Sveinsson úr Þrótti einnig, en Þróttur hefur lokið leikjum sinum. Alfreð er nú í þriðja sæti með 88 mörk. Eins og málin standa nú á Alfreð meiri möguleika á að verða markakóngur, þar sem hann leikur gegn léttari mótherjum heldur en Kristján og einnig má búast við því að Víkingar taki Kristján úr umferð.“
Það kom á daginn, Kristján var tekinn úr umferð; skoraði ekki nema sex mörk. Víkingur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í hreinum úrslitaleik, 16:15, á laugardegi. Víkingur fékk 34 stig, FH 31.
KR-ingar mættu KA í Laugardalshöllinni á föstudagskvöldi og var Alfreð rólegur í byrjun; skoraði ekki nema 3 mörk fyrstu 20 mín. leiksins og síðan fimm síðustu mörk KR í fyrri hálfleik. Alfreð bætti við þremur mörkum á fyrstu 10 mín. síðari hálfleiksins og var þá kominn með 11 mörk í stöðunni 19:12 og 20 mín. til leiksloka. KR-ingar og aðrir í Höllinni voru þá byrjaðir að spyrja hvað markametið væri. Þegar það var komið á hreint; 20 mörk, fóru leikmenn KR að stöðva í hraðaupphlaupum til að gefa knöttinn á Alfreð, þannig að hann gæti skorað. Þá lét Jóhann Ingi Gunnarsson, þjálfari KR, Alfreð vera framar á vellinum og hann tók síðan ekki þátt í varnarleiknum. Stóð á vallarhelmingi KA og beið eftir að fá knöttinn. Alfreð skoraði 10 af síðustu 13 mörkum KR í leiknum, 33:20. Markametið var hans, 21 mark og þar af fjögur skoruð úr vítaköstum. Hann nýtti ekki eitt vítakast.
KR-ingar beittu sömu brögðum og Þróttarar gerðu í lokaumferðinni 1981, þegar Sigurður Sveinsson skoraði 16 mörk í síðasta leik Íslandsmótsins gegn Val. Setti þá markamet í 1. deild (8 liða deild), 135 mörk. Sló met sem Ingólfur átti, 122 mörk (6 liða deild).
Alfreð varð markakóngur 1982, skoraði 109 mörk í 8-liða deild. Næstur kom Kristján með 97 mörk og þá Sigurður með 91 mark.
Hallur Símonarson, íþróttafréttamaður DV, sagði þannig frá: „Mikil spenna var hve mörk Alfreðs yrðu mörg. Raunverulega allir spenntari en Alfreð, því þessi hlédrægi, greindi piltur var á köflum bókstaflega feiminn við hvað athyglin beindist að honum. En hann skoraði og skoraði.“
Já, Alfreð fékk að leika lausum hala í leiknum, fékk enga mótspyrnu. KA-liðið hafði að engu að keppa; var fallið í 2. deild!
Guðmundur Guðjónsson skrifaði í Morgunblaðið: „Í síðari hálfleik var bara spurt: Hvað skorar Alfreð mikið? Félagar hans gerðu í því að mata hann, biðu eftir í hraðaupphlaupum og hvaðeina. Þá voru fyrri félagar hans hjá KA mjög kurteisir að taka hann ekki úr umferð þegar ljóst var í hvurs lags stuði hann var. KA-liðið hafði sýnilega þverrandi áhuga í leiknum eftir því sem á hann leið.“
Akureyrarblaðið Dagur sagði þannig frá: „Alfreð varð markakóngur. Sennilega hafa fyrrverandi samherjar Alfreðs í KA-liðinu viljað veg hans sem mestan í þessum leik til þess að hann næði hinum eftirsótta markakóngstitli!“
Þróun á markameti!
Fyrsta Íslandsmótið í handknattleik fór fram 1940 og var keppt í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu í Reykjavík. Keppnisgólfið var 11×20 metrar. Markrammi án nets var á veggjum, hæð 2 m, breidd 3 metrar. Vítateigsbaugur var 3 metrar. Allt að 120 áhorfendur gátu verið í salnum.
* Brandur Brynjólfsson, Víkingi, varð fyrstur til að skora yfir 10 mörk í leik. Hann skoraði 14 mörk í leik gegn ÍR, 36:14. Leiktími 2×15 mín.
Byrjað var að leika að Hálogalandi 1946 á 11×28 m keppnisgólfi. Allt að 1.000 áhorfendur gátu verið í bragganum.
* Leikir voru 2×25 mín. Geir Hjartarson, Val, skoraði 14 mörk í leik gegn Víkingi, 36:15.
* Gunnlaugur Hjálmarsson, ÍR, setti nýtt markamet 1958 er hann skoraði 16 mörk í leik gegn Aftureldingu, 40:23. Leiktími var þá orðinn 2×30 mín.
* 1959 jafnaði Gunnlaugur met sitt er hann skoraði 16 mörk í leik gegn Fram, 32:29. Þórir Þorsteinsson, KR, skoraði 16 mörk í leik gegn Ármanni, 33:23.
Ragnar með nýtt met
Ragnar Jónsson, FH, setti nýtt met 1960, er hann skoraði 18 mörk í leik gegn Ármanni, 46:13.
ÍR átti tvo markahæstu leikmennina 1961 í 6-liða deild, einföld umferð (5 leikir á lið); Gunnlaugur 43 mörk og Hermann Samúelsson 42 mörk. Þeir skoruðu samtals 27 mörk er ÍR vann Aftureldingu í síðasta leik, 30:16; Gunnlaugur 14, Hermann 13.
Glæsilegur árangur Ingólfs
Ingólfur Steinar Óskarsson setti glæsileg met í Hálogalandi keppnistímabilið 1962-1963. Hann skoraði 20 mörk í leik gegn ÍR, 48:24, sem var tvöfalt met! Flest mörk skoruð af einstaklingi í leik og flest mörk skoruð í leik, samtals 72 mörk. Þegar staðan var 32:18 skoruðu Framarar 11 mörk í röð (43:18) og réði Finnur Karlsson, markvörður ÍR, ekkert við Framara, sem skutu hann á kaf!
Ingólfur skoraði alls 122 mörk í 10 leikjum í sex liða deild – tvöföld umferð í fyrsta skipti, en hann skoraði í leikjum gegn:
ÍR: 20 og 12.
Víkingi: 8 og 10.
FH: 7 og 10.
Þrótti: 13 og 16.
KR: 17 og 9.
Met Ingólfs; 20 mörk, stóð í 19 ár, eða þar til Alfreð bætti það 1982; fyrir 40 árum. Það stendur enn – 21 mark í leik!
Páll skoraði 21 mark
Þess má til gamans geta að Páll Ólafsson, Þrótti, náði að skora 21 mark í leik í úrslitakeppni um fall í 1. deild milli Þróttar, KR, Hauka og KA í mars 1984. Einn hluti keppninnar fór fram á Akureyri og lagði Þróttur Hauka þar að velli, 34:26. Páll skoraði 21 mark og fékk gullin tækifæri til að bæta við mörkum. Páll nýtti ekki þrjú vítaköst í röð undir lok leiksins.