„Þeir eru stærri og þyngri en við en vonandi erum við fljótari en þeir. Eins og staðan er á hópnum í dag þá reikna ég með að við getum rúllað betur á okkar liði en þeir á sínu. Okkar markmið er að rífa upp tempóið og sjá hvað gerist,“ sagði Aron Dagur Pálsson leikmaður Vals í samtali við handbolta.is í gær um væntanlega viðureign Vals og PAUC í Evrópudeildinni í handknattleik sem fram fer í Origohöll Valsmanna og hefst klukkan 19.45.
Mikil eftirvænting ríkir fyrir leiknum.
„Við höfum leikið okkar bestu leiki í keppninni þegar hraðinn hefur verið sem mestur og mögulegt hefur verið að halda tæknifeilunum í lágmarkið. Það er ákveðinn lykill að leiknum af okkar hálfu að lágmarka mistök en halda samt uppi miklum hraða,“ sagði Aron Dagur ennfremur.
„Það hefur sýnt sig í Evrópukeppninni að hvert dauðafæri er talið þegar upp er staðið. Það er hinsvegar ekkert sem hægt er að æfa fyrir leikinn. Menn verða bara að vera einbeittir og setja sín skot, gera sitt besta,“ sagði Aron Dagur og bætti við.
„Einnig verðum við að sýna þolinmæði í vörninni. Leikmenn PAUC er öflugir við að vinna mjög vel úr leikkerfum sínum, vinna tveir og tveir saman. Liðið er skipað þungum gaurum á línunni og klóum leikmönnum fyrir utan sem reyna mjög á þolinmæði og einbeitingu varnarmanna,“ sagði Aron Dagur Pálsson leikmaður Vals.
Viðureign Vals og PAUC hefst í Orighöllinni klukkan 19.45. Hægt er að nálgast aðgöngumiða á tix.is með því einu að smella hér.