„Það gerist bara eitthvað hjá okkur fyrstu 10 til 15 mínúturnar í síðari hálfleik. Þá féllum við bara alltof langt niður. Þetta á alls ekki að gerast hjá okkur en því miður þá höfum sýnt þessa hlið alltof oft á mótinu. Það er ástæðan fyrir því að við erum í þessari stöðu,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is í kvöld eftir að ljóst varð, þrátt fyrir sigur á Austurríki 26:24 í síðasta leik milliriðils, að íslenska landsliðið fær ekki tækifæri til að leika í forkeppni Ólympíuleikana í mars.
Niðurstaðan er ógeðslega fúl
„Við vorum með þá [Austurríkismenn] eftir fyrri hálfleikinn, vörn og markvarsla frábær og sóknarleikurinn var allt í lagi. Í hálfleik töluðum við meðal annars um það að austurríska liðið hafi lent í þessari stöðu áður að vera talsvert undir í leikjum sínum í mótinu en alltaf náð að koma til baka. Við vorum vel meðvitaðir um það þegar síðari hálfleikur hófst. Engu að síður gáfum bara allt of mikið eftir fyrstu 10 til 15 mínúturnar í síðari hálfleik. Niðurstaðan er ógeðslega fúl,“ sagði Aron sem var eins og aðrir leikmenn íslenska landsliðsins ákaflega vonsvikinn hvernig til tókst í leiknum og á mótinu í heild.
Komum okkur í þessa stöðu
„Miðað við hvernig mótið spilaðist fyrir okkur þá áttum við kannski ekkert betra skilið. Við komum okkur sjálfir í þessa stöðu með því að spila illa fyrstu þrjá leikina á mótinu. Þegar upp er staðið þá lékum við sjö leiki. Við náðum oft mjög góðum köflum en því miður þá virtust markverðir andstæðinganna alltaf eiga leik lífs síns. Því miður hitti það á í þessu móti,“ sagði Aron og bætti við að leikurinn við Ungverja í síðustu umferð riðlakeppninna í München hafi reynst dýrastur þegar upp verður staðið.
Situr lengi í mér
„Ég á lengi eftir að naga mig í handabökun yfir hversu drulluslakur ég varð í þeim leik. Sá leikur á eftir að sitja lengi í mér,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is í Lanxess Arena í kvöld.