Valur mætir rúmenska liðinu Steaua Búkarest í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik en dregið var í morgun. Fyrri viðureignin verður í Búkarest 23. mars og sú síðari viku síðar í N1-höll Valsmanna við Hlíðarenda.
„Ég held að þetta sé bara ágæt niðurstaða,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals þegar handbolti.is heyrði í honum rétt áðan.
„Ég á eftir að setjast yfir Steaua liðið en það hefur lengi verið öflugt þótt það sé í tíunda sæti rúmensku deildarinnar í dag. Steaua var til að mynda 19:5 yfir eftir fyrri hálfleik gegn Linz og fór létt í gegnum viðureignina við austurríska liðið,“ sagði Óskar Bjarni ennfremur.
Tatran Presov, sem sló út FH og Aftureldingu í tveimur síðustu umferðum keppninnar mætir FTC frá Ungverjalandi í átta liða úrslitum.
Eftirtalin lið drógust saman:
Olympiacos SFP (Grikkl.) – MRK Krka (Slóveníu)
FTC-Green Collect (Ungv.) vs Tatran Presov (Slóvakía)
CSA Steaua Búkarest (Rúm.) – Valur.
CS Minaur Baia Mare (Rúm.) – Bregenz (Austur.)
Einnig var dregið í undanúrslit. Sigurliðið um rimmu Vals og Steaua mætir sigurliðinu úr viðureign CS Minaur Baia Mare og Bregenz Handball.