„Þetta er bara geggjað,“ sagði glaðbeittur þjálfari Stjörnunnar, Hrannar Guðmundsson, þegar hann varð á vegi handbolta.is í Skógarseli í kvöld eftir að Stjarnan lagði ÍR, 35:34, í átta liða úrslitum Poweradabikarsins í handknattleik karla. Stjarnan er þar með komin í undanúrslit keppninnar í fimmta sinn á sex árum.
Á sama tíma fyrir ári
„Þetta er líka síðasti leikur okkar fyrir jólafrí og sætt að fara inn í fríið með sigur. Á sama tíma fyrir ári unnum við Hauka í síðasta leik fyrir jól með eins marks mun eftir að hafa verið talsvert undir tíu mínútum fyrir leikslok. Það er bara frábært að fara með sigur inn í pásuna. Hvað þá að komast áfram í bikar í síðast leik fyrir jól,“ sagði Hrannar en hans menn áttu undir högg að sækja lengi vel leiksins í kvöld.
Réðum ekkert við Bernard
„Við gátum nánast sleppt því að leika vörn í fyrri hálfleik svo slakur var varnarleikurinn. Okkur tókst aðeins að bjarga andlitinu í síðari hálfleik með fimm einn vörn. Bernard (Kristján Darkoh] var hrikalega góður í leiknum. Við réðum ekkert við hann.“
Ætlaði aldrei að takast
Stjarnan jafnaði leikinn margoft í síðari hálfleik en svo virtist sem liðinu ætlaði ekki að takast að komast yfir þrátt fyrir hvert tækifærið á fætur öðru. Hrannar tók undir að það hafi ekki litið vel út.
„Ég var farinn að halda að það ætlaði ekki að takast hjá okkur að komast yfir. En þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég hrikalega ánægður með liðið. Það gafst aldrei upp,“ sagði Hrannar.
Lengra myndskeiðsviðtal við Hrannar er að finna ofarlega í þessari grein.
Sjá einnig: „Ég er ekkert eðlilega fúll“