„Það er mjög mikið áfall fyrir okkur að missa Elvar Örn úr hópnum. Hann hefur verið hjartað í okkar varnarleik. Þótt Elvar hafi ekki leikið sókn í gær þá hefur hann hlutverk í sóknarleiknum, er með eiginleika sem aðrir hafa ekki. Þetta er högg,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í viðtali við handbolta.is í hádeginu spurður hversu slæmt það væri að Elvar Örn Jónsson leikur ekki fleiri leiki á Evrópumótinu í handknattleik. Elvar Örn brotnaði á handarbaki undir lok fyrri hálfleiks í viðureign Íslands og Ungverjalands í gærkvöld.
„Við verðum að taka þessa glímu og vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin. Ég hef trú á að við getum leyst þetta.
Velti fyrir mér að kalla inn mann
„Ég hef velt fyrir mér að kalla inn mann, ekki endilega til þess að fylla skarð Elvars, því þeir sem eiga að gera það eru þegar í hópnum. Nú færist hans ábyrgð yfir á Elliða, Ými, Arnar Frey og Einar Þorstein. Þeir koma til með að spila í hjarta varnarinnar.

Getum misst fleiri
Það getur vel verið að við köllum inn mann til þess að vera með okkur. Allt getur gerst í þeim leikjum sem við eigum eftir. Við getum misst fleiri leikmenn í meiðsli og einnig í leikbann eins og dæmi eru um á mótinu. Við verðum að hafa borð fyrir báru. Fram undan eru margir leikir,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik í viðtali við handbolta.is áður landsliðið fór frá Kristianstad eftir hádegið í dag.
EM karla 2026 – milliriðlar – úrslit, staðan, leiktímar
EM karla 2026 – úrslit, staðan og leiktímar
Landslið Íslands á EM 2026 – strákarnir okkar



