Sigvaldi Björn Guðjónsson var einn fjögurra Íslendinga sem varð norskur bikarmeistari í handknattleik karla á sunnudaginn eftir sætan sigur Kolstad á Elverum í úrslitaleik í Ósló, 28:27. Sigvaldi Björn segir alltaf sætt að vinna titil og koma með byr í seglum til undirbúnings með íslenska landsliðinu fyrir heimsmeistaramótið sem framundan er sem verður það fjórða sem hann tekur þátt í.
Sigvaldi Björn var ekki með íslenska landsliðinu þegar það kom saman í nóvemberbyrjun og vann Bosníu og Georgíu í undankeppni EM. Meiðsli settu þá strik í reikninginn.
„Ég er nokkuð góður núna og hef jafnað mig á þeim meiðslum sem hrjáðu mig í síðasta verkefni. Það er kærkomið að koma heim í landsliðshópinn. Ég hef beðið eftir þessu lengi,“ segir Sigvaldi Björn í samtali við handbolta.is í morgun áður en önnur æfing landsliðsins á árinu hófst í Víkinni.
„Ég ótrúlega spenntur fyrir komandi vikum. Við eigum mikið inni auk þess sem síðustu stórmót hafa ekki gengið sem skildi. Okkur langar bara að byrja sem fyrst. Þetta verður algjör veisla,“ segir Sigvaldi Björn.
Nánar er rætt við Sigvalda Björn í myndskeiði í þessari grein.
Heimsmeistaramótið í handknattleik karla hefst 14. janúar í Danmörku, Króatíu og Noregi. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður 16. janúar. Áður HM hefst leikur íslenska landsliðið tvo leiki við Svía ytra 9. og 11. janúar. Báðir leikir verða sýndir á RÚV.