„Ég er mjög ósáttur við lungan úr leiknum hjá okkur því flest allt var illa framkvæmt. Þetta voru fyrst og fremst vonbrigði,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka í samtali við handbolta.is eftir tap liðsins fyrir Val, 31:25, í áttundu umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Haukar voru lengi vel 10 mörkum undir í síðari hálfleik og voru fjarri því að fá eitthvað út úr leiknum.
„Þetta var einn af stóru deildarleikjum tímabilsins og við mættum varla til leiks,“ sagði Ásgeir Örn og var hálf orða vant í samtali við handbolta.is.
„Valsmenn voru vissulega góðir en við alls ekki og við bara spiluðum leikinn upp í hendurnar á þeim. Því fór sem fór“
Fyrsta korterið algjör hörmung
Haukar voru fjórum mörkum undir í hálfleik og áttu ennþá möguleika á að koma til baka. Sú varð ekki raunin.
„Fyrsta korterið hjá okkur í síðari hálfleik var algjör hörmung og eiginlega ekkert meira um það að segja,“ bætti Ásgeir Örn við og sagðist ætla að leggjast yfir hvað fór úrskeiðis því frammistaðan var ekki í nokkrum takti við undanfarna leiki Hauka.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildunum.