Nikolaj Jacobsen, þjálfari heimsmeistara Danmerkur, viðurkenndi að Portúgal hafi átt sigurinn skilið í leik liðanna í lokaumferð B-riðils Evrópumóts karla í Herning í Danmörku í gærkvöldi. Portúgal vann riðilinn og tekur tvö stig með sér í milliriðil en Danmörk tekur engin stig með sér.
„Ég er bæði argur og hnípinn en að einhverju leyti er þetta verðskuldað. Í dag náðum við ekki að komast á það stig sem þörf var á og það var ekki líkt okkur. Við gerðum of mörg mistök, vorum of slakir að senda boltann fram undir pressu og áttum í erfiðleikum með að finna flæðið í leik okkar sem við hefðum viljað,“ sagði Jacobsen á fréttamannafundi eftir tapið óvænta.
Portúgal lagði heimsmeistarana og vann riðilinn
Getum ekki skýlt okkur á bak við dómarana
Danskir fjölmiðlar hafa ritað um nokkra umdeilda dóma sem féllu gegn Dönum í leiknum en Jacobsen vildi ekki kenna þeim um það sem aflaga fór.
„Dómararnir hafa verið mikið í sviðsljósinu en þetta var leikur sem einkenndist af miklum ákafa og það munu alltaf vera ákvarðanir sem hægt er að ræða um eftir á.
Í dag getum við ekki skýlt okkur á bak við neitt sem dómararnir gerðu. Við verðum að líta í eigin barm og og bæta okkur í þeim hlutum sem við erum venjulega mjög góðir í,“ sagði hann.
Mjög erfitt fyrir okkur
Jacobsen hrósaði Portúgal fyrir leikinn í samtali við Handknattleikssamband Evrópu, EHF, og sagði liðið eitt það besta í heimi. Hrósaði hann því einnig eftir leikinn í gærkvöldi og fór ekki í felur með það að staðan væri erfið fyrir Danmörku úr því að liðinu mistókst að taka með sér tvö stig í milliriðil.
„Auðvitað er ég svekktur að við vorum þetta langt frá því getustigi sem við væntum af sjálfum okkur. Ég hafði vonast eftir því að þetta væri öðruvísi en í dag getum við einfaldlega sagt að Portúgal sýndi meiri getu og að við náðum ekki að komast á það stig sem þurfti til þess að vinna leik sem þennan.
Þetta er mjög erfitt fyrir okkur. Við byrjum á leik gegn Frakklandi á fimmtudag þannig að við erum búnir að setja sjálfa okkur undir eins mikla pressu og mögulegt er. Núna þurfum við að sjá hvort við getum unnið næstu fjóra leiki og þá sjáum við hvernig þetta þróast allt saman,“ sagði Nikolaj Jacobsen einnig við danska fjölmiðla.




