- Auglýsing -
Stevce Alusovski þjálfari Þórs á Akureyri er undir smásjá aganefndar HSÍ eftir að hann fékk rautt spjald vegna grófrar óíþróttamannslegrar framkomu í hálfleik í viðureign Þórs og ungmennaliðs Vals í Höllinni á Akureyri á laugardaginn eins og handbolti.is greindi þá þegar frá.
Rauða spjaldinu fylgdi útilokun með skýrslu. Samkvæmt heimildum handbolta.is eru meint ummæli sem Alusovski lét falla við dómarana litin mjög alvarlegum augum og metin sem gróf óíþróttamannsleg framkoma.
Skýrsla dómaranna, Ómars Arnar Jónsson og Sigurðar Hjartar Þrastarsonar, var tekin fyrir á fundi aganefnda HSÍ í gær. Í fundargerð nefndarinnar, sem birt var á vef HSÍ í gærkvöld, kemur fram að það sé mat aganefndar að brotið geti verðskuldað lengra en eins leiks bann.
Handknattleiksdeild Þórs var veittur frestur til klukkan 12 í dag til að senda frá sér greinargerð Alusovski til varnar. Aganefnd kemur saman til framhaldsfundar í dag eftir að greinargerð Þórs hefur borist.
- Auglýsing -