Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Akureyri:
„Tilfinningin er bara mjög góð,“ segir Arnór Þorri Þorsteinsson leikmaður Þórs í samtali við handbolta.is eftir að Þór tryggði sér sæti í Olísdeild karla á næstu leiktíð með sigri á HK2, 37:29, í síðustu umferð Grill 66-deildar karla í íþróttahöllinni á Akureyri í dag.
„Við höfum verið að vinna í þessu í nokkur ár og höfum púslað saman liði með uppöldum Þórsurum í vetur sem gekk svona ljómandi vel. Það gekk flest allt upp hjá okkur. Við erum mjög sáttir.“
Gríðarleg stemning var í Íþróttahöllinni á leiknum. Full höll, gleði og gaman. „Aðsóknin hefur verið mjög góð hjá okkur og verður vonandi svona áfram næsta vetur,“ segir Arnór Þorri sem undirstrikar að Þór eigi að vera í Olísdeildinni.
„Þór á að vera í Olísdeildinni. Nú fáum við bæjarslaginn aftur með fullri höll,“ segir Arnór Þorri Þorsteinsson leikmaður Þórs.
Lengra viðtal við Arnór Þorra er að finna í myndskeiði ofar í þessari frétt.