Þórir Hergeirsson, sem um áramót lét af störfum landsliðsþjálfara Noregs í handknattleik kvenna eftir 15 ára sigursælt starf, var í dag sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þórir fær orðuna fyrir afreksferil í þjálfun og framlag til handbolta kvenna, segir í tilkynningu frá forseta Íslands í dag. Fjórtán voru sæmdir orðunni í dag. Þórir er staddur erlendis og tekur hann við orðunni við fyrsta tækifæri.
Um miðjan desember stýrði Þórir norska landsliðinu til sigurs á Evrópumótinu sem fram fór í Austurríki. Í ágúst varð norska landsliðið Ólympíumeistari í handknattleik kvenna.
Sá sigursælasti
Þórir, sem er sigursælasti landsliðsþjálfari handknattleikssögunnar hvort heldur þegar litið er til kvenna- eða karlalandsliða, tók við þjálfun norska kvennalandsliðsins í byrjun árs 2009 eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari landsliðsins í átta ár og starfsmaður þess þar áður frá 1993. Þórir tilkynnti í byrjun september að hann ætlaði ekki að halda áfram þjálfun landsliðsins þegar starfssamningurinn við norska handknattleikssambandið rynni út í lok desember.
Frá 2009 er árangurinn Þóris á stórmótum:
Gullverðlaun: 11 (EMx6, HMx3, ÓL2).
Sifurverðlaun: 3 (1xEM, HM2).
Bronsverðlaun: 3 (HMx1, ÓLx2).
Fjórða sæti: 1 (HM2019).
Fimmta sæti: 2 (HM2013, EM2018).
- Þórir hefur búið í Noregi frá 1986. Hann er kvæntur Kirsten Gaard. Þau eiga tvær dætur og einn son.