Þórir Hergeirsson fráfarandi landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik kvenna og sigursælasti landsliðsþjálfari í handknattleikssögunnar var í kvöld valinn þjálfari ársins 2024 hér á landi af Samtökum íþróttafréttamanna í hófi sem haldið var í Silfurbergi í Hörpu. Þetta er í þriðja sinn sem Þórir hreppir nafnbótina hér á landi. Fyrri tvö skiptin var fyrir árin 2021 og 2022.
Undir stjórn Þóris vann norska landsliðið gullverðlaun á Ólympíuleikunum í ágúst á síðasta ári og EM í síðasta mánuði.
Þórir gat ekki verið viðstaddur vegna þess að hann og norska landsliðið komu einnig til greina sem þjálfari ársins og lið ársins í Noregi þegar uppskeruhátíð norska íþróttasambandsins fór fram í Þrándheimi. Þórir sendi eftirfarandi þakkarávarp.
Sjö þjálfarar fengu stig í kjörinu á þjálfara ársins. Þar af voru fjórir handknattleiksþjálfarar:
1. Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennaliðs Noregs í handbolta 116 stig.
2. Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta 48 stig.
3. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings í fótbolta 17 stig.
4. Alfreð Gíslason, þjálfari karlaliðs Þýskalands í handbolta 15 stig.
5. Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handbolta 9 stig.
6. Halldór Árnason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta 6 stig.
7. Freyr Alexandersson, þjálfari karlaliðs Kortrijk í fótbolta 5 stig.
(Starfsmaður handbolti.is er félagi í Samtökum íþróttafréttamanna sem stendur fyrir valinu).