Forkeppni Ólympíuleikanna í handknattleik karla hefst síðdegis í dag og lýkur á sunnudag. Hún fer fram í þremur fjögurra liða riðlum sem leiknir verða í Granollers á Spáni, Hannover í Þýskalandi og Tatabánya í Ungverjalandi. Þegar upp verður staðið tryggja tvö efstu lið hvers riðils sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum sem fram fara í París frá 25. júlí til 11. ágúst.
Þrír íslenskir þjálfarar verða í eldlínunni. Aron Kristjánsson stýrir landsliði Barein gegn landsliðum Brasilíu, Slóveníu og Spánar í riðlinum í Granollers. Fyrsti leikurinn verður við spænska landsliðið í dag.
Alfreð Gíslason þjálfari þýska landsliðsins mætir með sína sveit til leiks í Hannover. Þangað er einnig kominn Dagur Sigurðsson með landslið Króata í frumraun sinni. Dagur tók við þjálfun króatíska landsliðsins á dögunum. Einnig eiga landslið Alsír og Austurríki sæti í riðlinum í Hannover.
Norðmenn, Portúgalar, Túnisbúar og Ungverjar bítast um farseðlana í riðli þrjú í Tatabánya í Ungverjalandi.
Riðill 1: Barein, Brasilía, Slóvenía, Spánn.
Leikið í Palau d’Esports, Granollers, Spáni.
Leikir í dag:
17.30: Spánn – Barein.
20.00: Slóvenía – Brasilía.
– Tveir leikir fara fram á morgun, föstudag, frí á laugardag, síðasta umferð á sunnudag.
Riðill 2: Alsír, Austurríki, Króatía, Þýskaland.
Leikið í ZAG Arena, Hannover, Þýskalandi.
Leikir í dag:
16.45: Þýskaland – Alsír.
19.15: Króatía – Austurríki.
– Frí á morgun, föstudag, tvær síðustu umferðirnar fara fram á laugardag og sunnudag.
Riðill 3: Noregur, Portúgal, Túnis, Ungverjaland.
Leikið í Tatabánya Arena, Ungverjalandi.
Leikir í dag:
17.30: Noregur – Portúgal.
20.00: Ungverjaland – Túnis.
– Frí á morgun, föstudag, tvær síðustu umferðirnar fara fram á laugardag og sunnudag.
Leikirnir eru aðgengilegir á youbube síðu IHF: https://www.youtube.com/results?search_query=ihf+competitions
Tvö efstu lið hvers riðils hreppa farseðil á Ólympíuleikana sem fara fram í París frá 25. júlí til 11. ágúst. Fyrri hluti handknattleikskeppninnar fer fram í París en síðari hlutinn í Lille.
Þegar hafa landslið sex þjóða tryggt sér þátttökurétt á ÓL 2024:
Frakkland, gestgjafi.
Danmörk, heimsmeistari.
Japan, vann forkeppni Asíu.
Argentína, vann forkeppni Suður Ameríku.
Egyptaland, Afríkumeistari.
Svíþjóð, frá EM karla 2024.
- Forkeppni Ólympíuleikanna í kvennaflokki fer fram með sama sniði 11.- 14. apríl. Einnig verður leikið á Spáni, í Ungverjalandi og Þýskalandi.