- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þurfum að lengja góðu kaflana, jafnt í vörn sem sókn

Óðum styttist í fyrsta leik Íslands á heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna lauk keppni á fjögurra liða æfingamóti í Noregi í gær. Liðið tapaði öllum viðureignum sínu, 29:23 fyrir Póllandi, 31:21, á móti heims- og Evrópumeisturum Noregs, og 27:24, í síðustu umferð þegar leikið var við Angóla sem einnig verður andstæðingur Íslands á HM.
Fyrsti leikur Íslands á HM verður á fimmtudaginn gegn Slóvenum.

Handbolti.is leitaði til Díönu Guðjónsdóttur handknattleiksþjálfara og fyrrverandi landsliðskonu og fékk hana til að svara nokkrum spurningu um frammistöðuna á æfingamótinu.
Díana ætlar að deila skoðunum sínum með lesendum handbolta.is meðan Ísland tekur þátt í HM.

Verðum að nýta breiddina betur

Hvað finnst þér um þessa frammistöðu í leikjunum þremur?

„Hún var svona upp og ofan.  Ég hefði viljað sjá aðeins betri frammistöðu. Sóknarlega vorum við með alltof mikið af töpuðum boltum. Fannst einnig að við værum að detta á stundum í það að vinna of mikið inn á miðsvæðið. Við þurfum að nýta breiddina á vellinum betur. Við höfum verið að klikka í dauðafærunum og þau skot þurfa að vera inni í leikjunum á HM sem ég hef fulla trú á að gerist. 

Varnarlega þurfum við að vera með betri færslu og loka sérstaklega svæðinu á milli þrista og bakvarðar. Fráköstin þurfa svo að vera okkar.“

Hildigunnur Einarsdóttir og Sunna Jónsdóttir landsliðskonur. Mynd/HSÍ

Of mikill munur á þristunum

Hvar liggja að þínu mati veikleikar liðsins?

„Mér fannst alltof mikill munur þegar það er verið t.d. að skipta út þristunum í vörn. Fengum þá oft fljótlega tvær mínútur á okkur og leikmenn sem koma inn hreyfa ekki fæturnar nægilega vel og sitja þá oft eftir. Sunna [Jónsdóttir]  og Hildigunnur [Einarsdóttir] geta ekki spilað allar mínúturnar en auðvitað hjálpar það Sunnu að hún fer yfirleitt ekki í sókn. Þristurinn sem kemur inn fyrir Hildigunni þarf að vera klár.  Við þurfum að skila okkur líka betur heim og taka frumkvæði varnarlega.

Sandra Erlingsdóttir sækir að vörn norska landsliðsins á æfingamótinu. Mynd/HSÍ

Ég vil fá meira út úr skyttunum okkar vinstra megin. Mér finnst Andrea [Jacobsen] eiga mikið inni en kom með marga góða spretti á móti Angóla. 

Tapaðir boltar mega ekki vera fleiri en 10-12 í leik en þeir voru of margir hjá okkur.“

Boltinn er dýrmætur

Var eitthvað sérstakt sem við getum byggt ofan á þessa leiki?

„Já, við eigum í öllum þessum leikjum góða kafla bæði varnar og sóknarlega sem við þurfum að lengja. Við þurfum að halda áfram að keyra upp hraðann en verðum þá að muna að boltinn er dýrmætur og það má stoppa upp við punktalínunna ef það er ekkert gott færi í boði. Ég held að skotnýtingin í hornunum eigi eftir að verða betri í leikjunum á HM en það er svo gott við þær sem leika í hornunum að þær halda alltaf áfram og taka sín færi.“

Markverðirnir Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Hafdís Renötudóttir leggja á ráðið með Hlyni Morthens markvarðaþjálfara. Mynd/HSÍ

Treysti á Bubba

Einhverjir leikmenn sem þér fannst koma öðrum betur út úr æfingamótinu?

„Sandra [Erlingsdóttir] stendur alltaf fyrir sínu, Hildigunnur og Sunna gera það líka. Mér fannst markverðirnir koma líka nokkuð vel út úr þessu. Ég held að þær eigi báðar eftir að spila gott mót, teysti á Bubba [Hlynur Morthens markvarðaþjálfari]  með það. Elín Rósa [Magnúsdóttir] var fín og á eftir að verða bara betri.

Aðrir leikmenn eiga að mér finnst smá inni og mér fannst sumir leikmenn tapa boltanum óþarflega mikið en svona er það því auðvitað er munur á gæðum/hraða í leikjunum þarna og hér heima.“

Leikir Íslands í D-riðli HM:
30. nóvember: Slóvenía - Ísland, kl. 17.
2. desember: Ísland - Frakkland, kl. 17.
4. desember: Angóla - Ísland, kl. 17.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -