- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þúsundir Færeyinga stefna á EM – 20 flugferðir auk þess sem Norræna siglir til Óslóar

Færeyingar ætla að fjölmenna til Óslóar á EM karla í janúar. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Reiknað er með að hið minnsta 5.000 Færeyingar fylgi karlalandsliðinu til Óslóar á Evrópumeistaramótið í handknattleik í janúar á næsta ári. Flugfélagið Atlantic Airways hefur skipulagt 20 flugferðir með Færeyinga til Gardemoen frá 14. til 18. janúar auk þess sem útgerð Norrænu ætlar að bjóða upp á ferðir til Óslóar fyrir allt að 1.500 manns. Skipið mun stalda við meðan keppnin stendur yfir þannig að farþegar eiga þess kost að gista um borð í stað þess að kaupa hótel í Ósló.

Færeyingar tryggðu sér farseðilinn á EM – verða með á öðru mótinu í röð

Færeyska landsliðið tryggði sér í gær keppnisrétt á EM karla og þegar er handknattleikssambandið og fleiri farnir að leggja línurnar fyrir mótið. Fyrir liggur að færeyska landsliðið leikur í Bærum, nærri Ósló. Leikdagar verða 16., 18. og 20. janúar. Dregið verður í riðla á fimmtudaginn.

Fleiri en fóru til Berlínar

Gríðarlegur áhugi er á meðal Færeyinga fyrir EM. Reiknað er með að fleiri leggi leið sína til Óslóar á EM en fóru til Berlínar á EM 2024 þegar færeyska landsliðið var með í fyrsta skipti. Þá var talið að um 5.000 Færeyingar hafi lagt leið sína til Berlínar þar sem landsliðið lék.

Fá 5.000 miða – vonandi fleiri

Fram kemur í tilkynningu færeyska handknattleikssambandsins að mótshaldarar hafi ábyrgst að Færeyingar fái 5.000 miða á hvern leikjanna þriggja í riðlakeppninni. Talið er að enn fleiri Færeyingar mæti. Hugsanlega verður ekki hægt að anna spurn eftir aðgöngumiðum.

Keppnishöllin í Bærum rúmar 8.500 áhorfendur og standa vonir til að hægt verði að verða Færeyingum út um fleiri miða ef áhugi þeirra þjóða sem þeir mæta verður dræmur.

Færeyingar sitja ekki heima þegar karlalandsliðið leikur á útivelli. Um 700 manns fylgdu liðinu til Hollands á leik í mars. Hefðu þeir verið fleiri ef fleiri aðgöngumiðar hefðu staðið þeim til boða.

700 Færeyingar fylgja landsliðinu til Hollands – fá ekki fleiri miða í bili

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -