„Því miður þá hef ég ekki svarið við því af hverju allt fór úrskeiðis hjá okkur í leiknum,“ sagði Elliði Snær Viðarsson í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir átta mark tap íslenska landsliðsins fyrir Ungverjum, 33:25, í afleitum leik í Ólympíuhöllinni í München. Þeim síðasta í riðlakeppni Evrópumótsins í karlaflokki.
„Við fengum nokkur tækifæri til þess að koma okkur inn í leikinn en fórum illa með dauðafæri á þeim köflum. Okkur tókst aldrei að ná stjórn á leiknum, vorum lengi vel á eftir.
Varnarleikurinn var góður lengi vel, ekki síst í fyrri hálfleik. Þegar á leið þá misstum við þéttleikann í vörninni þegar á leið. Þarf að leiðandi fórum við út í hluti sem við réðum alls ekki við í að þessu sinni. Því miður,“ sagði Elliði Snær.
Sóknarnýtingin var mjög slæm sem lýsir sér best í að liðið skoraði aðeins 25 mörk, þar af nokkur eftir að ljóst var að leikurinn var tapaður. Elliði Snær sagði ljóst að fara verði vel yfir það sem miður gengur í sóknarleiknum, sem er margt, auk þess sem slæm nýting á opnum færum eltir liðið leik eftir leik. Tæknifeilarnir voru margir í gær, ríflega 20. Sagði landsliðsþjálfarinn það eftir leikinn vera nánast galna staðreynd.
„Við gáfum Ungverjum alltaf tækifæri til þess að byggja ofan á forskot sitt. Við erum með topp einstaklinga í öllum stöðum, gæðin eru til staðar en við fáum samt hlutina ekki til smella hjá okkur. Hver skýringin er, hef ég ekki vissu um,“ sagði Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson í samtali við handbolta.is í gærkvöld.
EM 2024 – leikjadagskrá, úrslit, staðan – milliriðlar