- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

„Þvílíkar hreðjar sem maðurinn sýndi“

- Auglýsing -

„Það verður eiginlega að segjast að þetta er þarna uppi með leiknum gegn Ungverjalandi í Ungverjalandi,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson eftir átta marka sigur Íslands á Svíþjóð í milliriðli 2 á Evrópumótinu í Malmö í kvöld.

„Að vinna heimaþjóð á þeirra heimavelli og gera þetta líka svona ótrúlega sannfærandi eins og við gerðum þetta í dag. Það gerir þetta ennþá sætara. Þvílíkur liðssigur,“ sagði hann einnig.

Gísli Þorgeir átti stórleik og gaf 11 stoðsendingar ásamt því að skora þrjú mörk. Íslenska liðið lagði grunninn að sigrinum snemma leiks.

Kom þeim svolítið í opna skjöldu

„Við vildum bara herja á þá. Við vissum að þeir væru ótrúlega sterkir og að við þyrftum að varast það sem þeir gera vel. Við töluðum líka um að það væri mjög mikilvægt að við myndum ekki fara frá okkar gildum, það sem við gerum í heimsklassa.

Það var einmitt að við keyrum líka svolítið á þá. Það kom þeim svolítið í opna skjöldu fannst mér. Við vorum líka að halda tempóinu svolítið uppi. Við vorum að fá einföld mörk, vorum að leysa vel inn. Við vorum alveg frábærir þótt ég segi sjálfur frá.

Síðan vorum við líka rosalega ánægðir með það að við vissum að það myndi koma áhlaup frá þeim og það er auðvitað við því að búast frá þessu heimsklassa liði sem Svíar eru með. Við héldum þá kúlinu og vorum með lausnir. Svo fengum við frábæra og mikilvæga bolta frá Viktori,“ sagði Gísli Þorgeir.

Boðar vonandi gott fyrir framhaldið

Svíþjóð minnkaði muninn í 21:20 og 23:22 en Ísland stóðst áhlaup heimamanna.

„Það er ótrúlega sterkt. Þetta boðar vonandi gott fyrir framhaldið. Eins sætur og sigurinn var í dag þá verðum við að vera eins fljótir að koma okkur niður á jörðina.

Ef við rennum í næstu tveimur leikjum þá getur það orðið svakalega blóðugt fyrir framhaldið. Okkar markmið er að láta þennan sigur telja með því að klára næstu tvo,“ sagði hann.

Ekki hræddur við augnablikið

Gísli Þorgeir var ánægður með innkomu Viggós Kristjánssonar, sem skoraði 11 mörk, og Hauks Þrastarsonar sem kom sterkur inn í vörnina.

„Viggó, þvílíkar hreðjar sem maðurinn sýndi. Þetta er leikmaður sem er ekki hræddur við augnablikið og það sýndi sig í dag. Ég er þvílíkt ánægður með hvað hann kom með að borðinu í dag. Líka Haukur, djöfull var hann flottur í vörn.

Við vorum að ná vel saman og það er alveg sama hvert sem er litið, við vorum bara einbeittir á það að vinna í dag. Það var bara eitt markmið í dag, það var að vinna. Við ætluðum ekkert bara að standa í Svíum,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson að lokum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -