Handknattleiksmaðurinn ungi hjá Íslandsmeisturum FH, Ingvar Dagur Gunnarsson, leikur ekki fleiri leiki með liðinu á keppnistímabilinu eftir að hann fótbrotnaði við vinstri ökkla á æfingu með 19 ára landsliðinu rétt fyrir jólin.
„Ég fór í aðgerð í gær sem gekk mjög vel,“ sagði Ingvar Dagur í samtali við handbolta.is í dag. „Ég verð úr leik í fimm mánuði. Þar af leiðandi er tímabilinu lokið. Ég tek stefnuna á að vera kominn aftur á völlinn í sumar og ná HM 19 ára landsliða í ágúst,“ sagði Ingvar Dagur ákveðinn sem hefur verið fastamaður í meistaraflokksliði FH frá upphafi leiktíðar í haust.
Lenti illa eftir uppstökk
Ingvar Dagur segist hafa lent illa eftir uppstökk á æfingu 19 ára landsliðsins laugardaginn 21. desember, brot hafi komið sitthvorum megin við ökklakúluna og liðbönd hafi slitnað. „Þetta var frekar flókið og slæmt brot en aðgerðin tókst vel. Framundan er að ná sér góðum jafnt og þétt,“ sagði Ingvar Dagur sem var í 18 ára landsliðinu sem hafnaði í 4. sæti á Evrópumótinu í Svartfjallalandi.
Gríðarlegt högg en mikil reynsla
„Þetta er gríðarlegt högg fyrir mig að verða fyrir þessum alvarlegu meiðslum og ákveðin reynsla að verða fyrir,“ sagði Ingvar Dagur sem hefur átt eftirminnilegt tímabil með FH fram til þessa. Auk þess að leika í Olísdeildinni og bikarkeppninni þá var Ingvar Dagur með FH-liðinu í leikjunum í Evrópudeildinni í október og nóvember. Leikirnir veittu ungum handknattleiksmanni sem er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki mikilvæga reynslu. Um leið hungrar hann í að ná sér góðum og halda áfram að taka framförum á handboltavellinum.
Fylgist spenntur með
Ingvar Dagur fylgist spenntur með félögum sínum í 19 ára landsliðinu sem leika til úrslita við Þýskaland á Sparkassen Cup í Merzig í Þýskalandi í kvöld. „Við töpuðum í úrslitaleik við Þýskaland í fyrra. Vonandi ná strákarnir að vinna í kvöld,“ sagði Ingvar Dagur Gunnarsson handknattleiksmaður hjá FH.