Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu komust í hann krappann gegn Bosníu í dag í undankeppni EM í handknattleik en þetta var fyrsti leikur Alfreðs með þýska landsliðið. Þótt ekki hafi Bosníumenn verið með fullskipað lið, aðeins 11 á leikskýrslu, þá tókst þeim að velgja þýska landsliðinu undir uggum. Bosníumenn voru með yfirhöndina í 45 mínútur í Düsseldorf áður en heimaliðið átti meira eftir á tanknum á lokasprettinum og vann með fjögurra marka mun, 25:21.
Bosníumenn voru fjórum mörkum yfir, 13:9, eftir að hafa tekið völdin á leikvellinum strax í upphafi og m.a. skoraði fimm af fyrstu sjö mörkun leiksins.
Sem fyrr segir þá áttu Þjóðverjar í mesta basli. Þunnskipað lið Bosníumanna varð fyrir áfalli í leiknum þegar einn þeirra besti maður, Ivan Karacic, meiddist á ökkla í síðari hálfleik og kom ekkert meira við sögu.
Hendrik Pekeler skoraði fimm mörk fyrir þýska landsliðið og var markahæstur. Uwe Gensheimer og Kai Häfner komu næstir með fjögur mörk hvor. Nicola Prce var markahæstur hjá landsliði Bosníu með átta mörk. Mirko Herceg var næstur með fimm mörk.
Þýska landsliðið mætir Eistlendingum í Tallinn á sunnudaginn en Bosníumenn taka á móti Austurríkismönnum í Bugojno. Austurríki vann Eistland í gær, 31:28.
Sögulegt í Minsk
Í þriðja riðli undankeppninnar skildu Úkraína og Rússland jöfn, 27:27, í Minsk í Hvíta-Rússlandi en þjóðirnar sættust á að mætast þar og leika báðar viðureignir sínar þar á næstu dögum. Síðari leikurinn fer fram á laugardaginn.
Þetta er í fyrsta sinn sem Úkraínumenn gera jafntefli við Rússa og því um talsverðan áfanga að ræða. Rússar voru með yfirhöndina í leiknum lengst af en Úkraínumenn voru seigir og lögðu aldrei árar í bát.
Stanislav Zhukov var markhæstur í úkraínska liðinu með sjö mörk. Sergiy Onufryienko var næstur með sex mörk. Hjá Rússum skoraði Aleksei Fokin flest mörk, sjö. Pavel Atman skoraði sex sinnum.
Þetta var fyrsti leikur Velimir Petkovic með rússneska landsliðið en hann var ráðinn í vor eftir að spilin voru stokkuð upp hjá rússneska landsliðinu eftir hrakfarir þess á EM í janúar.