Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergischer HC tókst ekki að leggja stein í götu meistaraliðsins THW Kiel á heimavelli í dag þegar liðin mættust í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Eftir jafnan fyrri hálfleik voru meistararnir sterkari þegar á leið og unnu þeir með fimm marka mun, 32:27.
Kiel hefur þar með 12 stig eftir sjö leiki í öðru sæti deildarinnar. Bergischer HC er í 12. sæti með sjö stig að loknum sjö leikjum. Rhein-Neckar Löwen er efst með 14 stig eftir átta leiki og Stuttgart er í þriðja sæti. Liðið er með 11 stig eftir átta viðureignir. Flensburg er í fjórða sæti með 10 stig en hefur aðeins lagt að baki sex leiki. Tveimur leikjum liðsins í röð hefur verið slegið á fest.
Arnór Þór skoraði fjögur mörk fyrir Bergischer HC, eitt þeirra var úr vítakasti. Ekki er að sjá að Ragnar Jóhannsson hafi komið við sögu hjá Bergischer að þessu sinni. Jeffrey Boomhouwer var markahæstur hjá liðinu með sex mörk og Max Darj var næstur með fimm mörk.
Nikas Ekberg skoraði flest mörk fyrir Kiel-liðið, sjö. Miha Zarabec og Harald Reinkind skoruðu fimm mörk hvor.